Föstudagur
Kl. 21:00 - 23:00 Tónleikar með Trössunum og Kaffimolunum - nýtt og gamalt efni.
Kl. 23:00 Pöbbakvöld í hátíðarsalnum, Gréta ,,Dúkkulísa" Sigurjóns ásamt Kaffimolunum og fleiri Eiðapoppurum spila af fingrum fram.
Laugardagur
Kl. 09:00-10:00 Morgunverður
Kl. 10:00-12:00 Frjáls tími. Tilvalið fyrir árgangahópana að hittast.
Kl. 12:00 - 12:15 Setning hátíðar á svölunum á Útgarði (snúa út að plani).
Kl. 12:15-13:00 Óvænt uppákoma, gestir þurfa að ganga á hljóðið til að finna listakonurnar Kristínu Maríu Ingimarsdóttur myndlistarkonu, Kristínu Lárusdóttur sellóleikara og Esther Jökulsdóttur söngkonu sem bjóða upp á magnaða stund á ennþá magnaðri stað.
Eiðavinurinn Helgi Hallgrímsson var sæmdur hinni íslensku fálkaorðu við hátíðlega afhöfn á Bessastöðum þann 17. júní s.l. Helgi fær orðuna fyrir ritstörf og rannsóknir á íslenskri náttúru. Hann er fæddur að Holti í Fellum árið 1935 en ólst upp á Arnheiðarstöðum og Arnheiðarstöðum í Fljótsdal. Eftir framhaldsnám í líffræði í Þýskalandi kenndi Helgi m.a. við Eiðaskóla, en hann var forstöðumaður við Náttúrugripasafnið á Akureyri 1964 - 1987, er hann flytur í Egilsstaði. Auk merkra bóka hefur Helgi ritað ótal greinar og smárit og fékk hann m.a. íslensku bókmenntaverðlaunin fyrir fræðibók sína um sveppi, einnig gaf hann út veglega bók um Lagarfljótið árið 2005 ásamt bók um Hallormsstað í Skógum. Helgi sat í stjórn Eiðavina til nokkurra ára og er dyggur liðsmaður Eiðavina. Stjórn Eiðavina og allir Eiðavinir óska Helga til hamingju með þessa verðugu viðurkenningu. Helgi er lengst til hægri á myndinni.
Eitt af því sem stjórn Eiðavina bryddar upp á á Eiðagleði í haust er árgangamót nemenda. Með því móti reynum við að tryggja ætíð lágmarksfjölda til að standa straum af kostnaði við gleðina. Þessa dagana er stjórn að vinna í að næla í áhugasama einstaklinga í þessum árgöngum til að hóa saman liðinu. Í haust er árgöngum 64-65, 74-75, 84-85 og 94-95 stefnt saman í Eiða. Það verður hálf öld í haust síðan elsti árgangurinn var þar við nám (64-65 árg.) -og 40, 30 og 20 ár síðan hinir hóparnir voru þar en árgangur 94-95 er síðasti nemendahópurinn sem var við nám í Alþýðuskólanum á Eiðum. Við auglýsum hér með eftir áhugasömum einstaklingum úr þessum árgöngum til að hóa saman liðinu sínu og eiga saman skemmtilegar stundir í gamla skólanum sínum í haust. Nú þegar er kominn frábær aðili til að hóa saman árgangi 84-85 og við munum án efa finna hina á næstu dögum. Tengiliður stjórnar við forsvarsmenn árganganna er Hlíf Herbjörns í síma 845-1104 eftir 1. júlí.
Ný stjórn Eiðavina hélt sinn fyrsta fund í kvöld og byrjaði stjórn á að skipta með sér verkum sem er svofarandi: Formaður Bryndís Skúladóttir, gjaldkeri Ásgerður Ásgeirsdóttir, ritari Jóhann G. Gunnarsson, meðstjórnendur Hlíf Herbjörnsdóttir og Kjartan Ólafsson, varamenn Nína Erlendsdóttir og Sólveig Stefánsdóttir.
Stjórnin skipti með sér fleiri verkum þar sem hver og einn tók að sér ákveðin verkefni til að sinna fyrir Eiðagleði í haust - allir með bros á vör og tilhlökkun í huga. Skreytingar, skráning, auglýsingar, dagskrá helgarinnar, veitingar, gisting og fullt af skemmtilegum símtölum við listafólk fra Eiðaárum og aðra Eiðavini eru m.a. á listanum. Bara skemmtilegt framundan hjá okkur og við hlökkum til að fá ykkur í Eiða í haust. Rafrænn skráningarseðill verður sendur út um 10. júlí og dagskrá helgarinnar birt um svipað leyti.
Aðalfundur Eiðavina var haldinn í gær og má segja með sanni að það hafi verið fámennt og góðmennt á fundinum en fundurinn fór fram á höfuðborgarsvæðinu að þessu sinni en fundarmenn voru einnig á skype á Egilsstöðum.
Formaður las skýrslu stjórnar en starfsemin var mjög blómleg á liðnu ári vegna afmælishátíðarinnar sem var afar fyrirferðarmikil í starfi stjórnar. Gjaldkeri gerði grein fyrir ársreikningum þar sem fram kom að tekjur aukast úr 690.000 í 3.140.000. Það skýrir þó ekki hagnað félagsins þar sem umsvif hátíðarinnar voru mjög mikil. Þótt hagnaður hafi ekki verið mikill var hann í fullu samræmi við áform stjórnar sem setti sér það meginmarkmið að hafa allt eins ódýrt og kostur var á í kringum hátíðina til þess eins að fá sem flesta Eiðavini á staðinn. Gróði var því ekki markmið. Ný stjórn var kosin á fundinum og þakkaði formaður Birni, Hlyni, Lilju og Steinu kærlega fyrir samstarfið og bauð nýja stjórn velkomna til starfa.
Bryndís Skúladóttir sem var endurkjörin formaður en aðrir í stjórn eru þau Ásgerður Ásgeirsdóttir og Jóhann G Gunnarsson sem sitja áfram í stjórn frá fyrra ári, en nýjir meðlimir eru Hlíf Herbjörnsdóttir, Kjartan Ólafsson, Nína Midjord Erlendsdóttir og Sólveig Heiðrún Stefánsdóttir. Hér má sjá myndir af nýrri stjórn.
Stjórnandi síðunnar bað Guðrúnu Einars frá Eiðum (Rúnu prestsins) um að senda sér hugleiðinguna sem hún flutti á poppmessunni í haust. Hún brást vel við þeirri beiðni og hér birtist hún.
Hugleiðing í poppmessu á Eiðum 22. september 2013
Ég er þakklát fyrir að fá að vera hér í dag og deila þessari stund með ykkur öllum. Mér finnst skemmtilegt framtak að efna til poppmessu í tengslum við Eiðagleði. Saga Eiða og kirkju hefur lengi verið samofin. Til eru heimildir um kirkju og setu prests á Eiðum langt aftur í aldir. Andrúmsloftið á Eiðum eftir að skóli hófst mótaðist einnig af tveimur guðfræðingum sem hér voru skólastjórar þeir Ásmundur Guðmundsson síðar biskup og Þórarinn Þórarinsson.
Mig langar að nota tækifærið og skila bestu kveðju frá foreldrum mínum, sr. Einari og Sigríði, en þau sáu sér ekki fært að vera hér í dag. Í tíð pabba hér á Eiðum voru haldnar popmessur með þátttöku Eiðanema. Í þá daga var ekki algengt að nýta rafmagnsgítara og poppmúsík í helgihaldinu og er þetta því minnisstætt. Poppmessa á Eiðum í tilefni 130 ára skólahalds passar því að mínu mati vel inn í Eiða-andann.
Guð er kærleikur.
Eins og góðri prestsdóttur sæmir sótti ég oft kirkju sem krakki hér á Eiðum. Mér eru minnistæð orðin á Prédikunarstólnum í Eiðakirkju áður en hann var gerður upp í upprunalega mynd, en þar stóð: Guð er kærleikur. Ég man að ég hugsaði , er þetta þá ekki flóknara en þetta, allt þetta með Guð, þar sem kærleikurinn er þar er Guð.
Síðustu vikur, þegar ég hef hlakkað til að koma austur, hef ég velt því fyrir mér hver drifkrafturinn væri á bak við þetta allt saman. Að við komum hingað öll, þessa daga, leggjum mikið á okkur bæði við undirbúning og ferðalög. ,,Hendum“ frá okkur hversdagslegum skyldum og höldum af stað á Eiðagleði.
Hér hafa margir lagt hönd á plóg , í orði sem á borði, það er búið að snurfusa, þrífa, hreinsa, ekki af því að það væri skylda, eða í ,,þeirra“ verkahring, heldur af löngun til að hlú að þessum stað, af kærleika og væntumþykju fyrir umhverfinu, og því sem staðurinn stendur fyrir og er í okkar huga. Margir hafa lagt að baki langa leið til að vera hér og kostað miklu til. Margir eru einnig með okkur í anda nær og fjær.
Kærleikurinn knýr oss.
Þegar ég velti þessu fyrir mér, drifkraftinum sem býr að baki þessu öllu, og allt það sem fólk hefur verið tilbúið að leggja á sig, svo Eiðagleði mætti verða að veruleika, þá leiðist hugurinn að sögu úr Nýja testamentinu af lömuðum manni og vinum hans. Lamaði maðurinn gat ekki nálgast Jesú eins og hann gjarnan vildi því hann gat sig hvergi hreyft. Vinir hans fjórir tóku sig þá til og lögðu hann á börur og báru hann að þeim stað sem Jesú var og ekki nóg með það, heldur rufu gat á þakið til að láta hann síga þar niður, svo hann fengi örugglega ósk sína uppfyllta.
Þessi saga minnir mig á hvað vinir gera oft fyrir hvern annan. Við erum oft tilbúin til að leggja mikið á okkur fyrir þann eða það sem okkur þykir vænt um. Kærleikur Eiðavina í garð Eiða, finnst mér kristallast í þessari hátíð, Eiðagleði.
Vináttan og kærleikurinn er afl, sterkt afl, sem knýr okkur áfram í aðstæðum eins og þessum. Kærleikur til hvers annars og kærleikur og væntumþykja fyrir staðnum.
Sameiginleg minning.
Eiðar eiga langa sögu. Héðan eiga margir dýrmætar minningar. Hér hefur fjöldi fólks hlotið menntun og uppeldi sem enst hefur þeim út í lífið. Ég hef oft sagt að það sem ég er ekki síst þakklát fyrir að hafa lært hér og hefur komið sér vel í gegnum lífið, er vélritunarkennslan hjá Valgerði heitinni skólastjórafrú. Og auðvitað margt, margt fleira, svo sem þátttaka í íþróttum og félagslífi.
Þegar Eiða-bolirnir voru prentaðir núna um árið, þótti mér svo vænt um að sjá Eiða-merkið á þeim. Þar koma fram þrjú orð: Manntak, mannvit og manngöfgi. Öll minna þau okkur á dyggðirnar sem felast í þessum orðum. Að leitast við að bera sinn málstað fallega fram, sýna góða dómgreind og umgangast lífið af virðingu. Menntun á Eiðum var ekki eingöngu menntun í ákveðnum fögum heldur menntun í því að lifa sem manneskja.
Á Eiðum var líf og fjör á öllum árstíðum. Margir ferðamenn hafa komið við á Eiðum erlendir sem innlendir. Staðurinn á líf í huga margra. Þannig viljum við að það haldi áfram að vera. Að Eiðastaður fái áfram að gefa fjölda fólks minningar sem það getur munað eftir alla tíð. Að fólk geti áfram notið nærveru við staðinn, og umhverfið í þeim mæli sem áður var. Að Eiðar fái að njóta sín og við fáum að njóta Eiða.
Þessa daga höfum við með nærveru okkar gefið Eiðastað líf í líkingu við það sem áður var. Gleði, þróttur, uppbygging, nærvera, vinatengsl.
Við eigum það sameiginlegt að vera Eiðafólk. Okkur þykir vænt um þennan stað, hann skiptir okkur máli, og okkur er ekki sama hvað verður um hann, né hvernig hlúð er að honum, eða hvaða ákvarðanir eru teknar. Við viljum hafa áhrif á framtíð staðarins.
Á fullorðinsárum hef ég áttað mig á að ég á ekki bara mína blóðfjölskyldu ég á fleiri fjölskyldur, m.a. Eiðafjölskylduna. Það hef ég ekki síst áttað mig á þegar ég á seinni árum hef fylgt fólki til grafar sem ég ólst upp með hér á Eiðum. Hugurinn reikar óneitanlega til þeirra nú á þessari stundu og alls þess fólks sem markaði sína spor hér á Eiðum og gerði staðinn að því sem hann var. Blessuð sé minnig þeirra allra.
Það er yndislegt að koma í Eiða og fagna því sem var og því sem er og vonandi verður.
Guð blessi Eiðastað og allar minningar okkar héðan og framtíð staðarins.
Guðrún Áslaug Einarsdóttir guðfræðingur