EIÐAVINIR

- alltaf hressir -

428233_10150612889265954_2026025173_n.jpg

Póstlisti



Receive HTML?

Innskráning

Um tilurð MMM

Á Eiðagleði, afmælishátíðinni sem haldin var í sept. s.l. lenti formaður Eiðavina í skemmtilegum samræðum við Stebba stjóra (Stefán Þórarinsson) um þær hugmyndir og manngildi sem liggja á bak við ,,emmin þrjú", en faðir hans Þórarinn Þórarnsson f.v. skólastjóri hannaði merkið. Stefán tók vel í þá ósk formanns að hann skrifaði smá grein fyrir Eiðavini um tilurð Eiðamerkisins, en Stefán man eftir föður sínum í djúpum pælingum við hönnuna, bæði hvað varðar inntak og útlit. Hafi Stefán þökk fyrir þetta skemmtilega innlegg hér að neðan. Bryndís Skúla, form. Eiðavina.

 

Emmin þrjú

Merki Eiðaskóla, tilurð og táknmál.

Upphaf skólastarfs á Eiðum má rekja allt aftur til ársins 1883. Sjötíu og fimm árum síðar, eða árið 1958, vildu stjórnendur skólans minnast þeirra tímamóta. Var það gert með margvíslegum hætti, meðal annars veglegri Eiðahátíð 9. og 10. ágúst það ár. Þetta rekur Ármann Halldórsson í bók sinni, Alþýðuskólinn á Eiðum, sem kom út árið 1983 á hundruðustu ártíð skólans.

Þar segir m.a.: ,, Enn er þess að geta í sambandi við hátíðarhöldin að gert var merki og valið kjörorð fyrir skólann. Hvort tveggja var eftir Þórarin (Þórarinsson) skólastjóra.’’

Þetta vor varð ég 11 ára og man að þróunartími þessa merkis var alllangur, bæði leit að einkunnarorðum og eins að formi merkisins. Rámar mig í ýmsar skissur sem faðir minn gerði eftir að einkunnarorðin höfðu verið valin áður en merkið tók á sig endanlegt form.

 

Merkið er hringlaga með þrjú hvít M á bláum grunni, lit hreinleikans, sem stækka hvert upp af öðru. Einkunnarorðin og form merkisins hafa skýra merkingu sem rétt er að varðveita því þau eru þrungin merkingu sem föður mínum var mjög í mun að halda á lofti til að skólastarfið mótaðist í þeim anda og að Eiðamenn hefðu inntak merkisins í heiðri hvar sem leið þeirra lá.

 

Í bréfi okkar systkina og mömmu, Sigrúnar I. Sigurþórsdóttur, til Menntaskólans á Egilsstöðum í október 1995, þar sem skólanum er heimiluð notkun merkisins sem arftaka Alþýðuskólans á Eiðum og Ragnheiður Helga systir skráði, stendur m.a. um merkið: ,,Kjörorðið er: manntak – mannvit – manngöfgi. Merkið er tákn fyrir þetta kjörorð: Þrjú hvít M á bláum grunni. Með orðunum manntak – mannvit – manngöfgi vildi skólamaðurinn og uppalandinn undirstrika að öll mannanna verk og aukin þekking eru lítils virði ef siðgæðisvitund og göfuglyndi skortir. Allt verður þetta að fylgjast að.’’

 

Af þeim sökum er emmið sem táknar manngöfgina stærra hinum og stendur efst. Hið hringlaga form merkisins táknar einingu þessara mannkosta sem eiga að vera aðall allra Eiðamanna. Það er á þennan hátt sem við minnumst túlkunar föður okkar á Eiðamerkinu sem Eiðavinir hafa nú gætt lífi að nýju.                                                 

Stefán Þórarinsson.

 

  

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Þórarinn Þórarinsson

skólastjóri 1938-1965.