Óskum öllum Eiðavinum gleðilegra jóla og alls hins besta á nýju ári.
Þökkum ykkur ánægjuleg samskipti og samstarf á liðnu ári.
Stjórn Eiðavina
Bryndís, Solla, Kjartan, Drífa, Halli, Pétur Georg og Grímlaugur.
Engar lýsingar finnast á hinum elstu kirkjum á Eiðum en þar hefur á fyrri öldum verið glæsileg timburkirkja (stafkirkja). Að stofni til virðist hún hafa staðið enn 1727 samkvæmt vísitasíu Jóns biskups Árnasonar. Lýsingin sýnir að hér var um stórhýsi að ræða, þrískipt: í forkirkju, miðkirkju og kór. Loft er yfir hluta mið- kirkju, stúkur með hurðum sitt hvoru megin við kór, og ‚útbrot‘ meðfram báðum hliðum miðkirkjunnar. Glergluggar eru á stöfnum og stúkum. Er með ólíkindum að slík kirkja skyldi vera reist fyrir svo fámenna sókn enda hefur hún líklega fremur átt að vitna um auðlegð og veldi staðarins en þjónustu við almenning. Líklegt er talið að Karl Arnórsson hafi látið byggja þessa kirkju á árunum 1320-1350. Í fornleifaskýrslu Björns Vigfússonar prests á Eiðum frá 1821 er lýst nokkrum kirkjugripum sem höfundur hennar telur hafa verið í miðaldakirkjunni. Þar á meðal er altarisbrík úr eik, útskorin, með myndum Péturs og Páls postula og krossmarki af alabastri í miðju. Auk þess „Nikolai líkneski“ af eik, um 1 m á hæð, í máluðum skáp með vængjahurðum. Ennfremur róðukross með Kristslíkneski af eik, hvítmáluðu, af svipaðri stærð. Loks kaleikur og patína, sem nú eru í Þjóðminjasafni. Altarisbríkin og Nikulás eru týnd en Kristslíkneskið rataði aftur í kirkjuna eftir nokkurn hrakning. Þess getur ekki í elstu lýsingum hennar og sögn er að það hafi fundist rekið á Eiðasandi við Héraðsflóa. (Úr Eiðasögu 1000-1998. Helgi Hallgrímsson og Skúli Björn Gunnarsson).
Aðlfundur Eiðavina var haldinn að Eiðum 18. nóv. s.l. Við áttum ágætan fund í gamla skólanum okkar og tókum í leiðinni til hendinni í Sögustofunni. Það er nóg af spennandi verkefnum framundan hjá stjórn enda ákvað stjórnin öll sem leggur sig að halda áfram. Meðal verkefna er að halda áfram með uppbyggingu Sögustofu þar sem sú breyting hefur orðið á að sumargisting hefur verið opnuð í skólahúsnæðinu og gestir sækja í að skoða sögu skólans. Grímlaugur Björnsson sem situr í stjórn Eiðavina og býr á Eiðum er safnvörðurin okkar og má leita til hans til að fá að skoða Sögustofuna. Stjórnin er einnig að aðstoða við undirbúning við gerð heimildamyndar um Eiða og fleiri útgáfumál eru jafnvel í deiglunni. Stjórnin er jafnframt farin að undirbúa aldarafmæli skólans í okt. 2019.
Stjórn Eiðavina 2017-2018 er þannig skipuð:
Bryndís Skúladóttir Seyðisfirði formaður
Sólveig Heiðrún Stefánsdóttir Egilsstöðum gjaldkeri
Kjartan Ólafsson Reykjavík ritari
Bjarni Halldór Kristjánsson Hafnarfirði meðstjórnandi
Drífa Arnardóttir Vestmannaeyjum meðstjórnandi
Pétur Georg Guðmundsson Garðabæ varamaður
Grímlaugur Björnsson Eiðum varamaður
Mynd tekin af hluta stjórnar eftir aðalfund í nóv.
Fv. Bryndís, Kjartan, Grímlaugur, Sólveig.
Kæru Eiðavinir.
Hér er kjörið tækifæri til að rifja upp skólaárin á Eiðum. Það er t.d. alveg gráupplagt að setjast niður í jólafríinu og pára eitthvað niður um þennan skemmtilega tíma :) Góða skemmtun!
Þjóðminjasafn Íslands sendir nú út spurningaskrá um minningar úr héraðsskólum og öðrum heimavistarskólum til sveita á unglingastigi. Söfnunin byggir eingöngu á frásögnum fyrrverandi nemenda og er því fyrst og fremst verið leita eftir minningum fólks.
Spurningaskráin er hluti af þjóðháttasöfnun Þjóðminjasafns Íslands sem staðið hefur óslitið síðan 1960. Spurt er um hefðir, félagslíf, ýmisleg samskipti við aðra nemendur og starfsfólk skólans, kennslu, nám, frístundir, tengsl við fjölskyldu og heimili o.fl.
Þjóðminjasafnið leitar eftir heimildarmönnum sem vilja svara þessari spurningaskrá. Hægt er að velja um að svara beint á netinu eða í ritvinnsluskjali (Word).
Hér er tengill á spurningaskrána:http://sarpur.is/Spurningaskra.aspx?ID=1745729.
Afrakstur söfnunarinnar verður gerður öllum aðgengilegur í menningarsögulega gagnagrunninum Sarpi eða sarpur.is, nema að annað sé tekið fram.
Góðan daginn kæru Eiðavinir.
Hlutverk okkar í stjórn Eiðavina er m.a. að hefja til vegs og virðingar sögu Eiða. Við ætlum nú á næstu mánuðum að rifja upp hitt og þetta í sögunni og hér er smá pistill um Eiða fyrr á tíð. Textinn er fenginn úr ritinu Eiðasaga 1000-1998 sem þeir unnu í sameiningu Helgi Hallgrímsson og Skúli Björn Gunnarsson. Við stefnum að því að uppfræða ykkur um söguna þannig að þegar þið mætið í aldarafmæli Alþýðuskólans eftir tvö ár ættuð þið að vita allt um söguna:) Spurning um að brydda upp á spurningakeppni þar að lútandi eins og oft var á skemmtikvöldum á Eiðum hér áður fyrr á árum.
Njótið lestursins.
Eiða er fyrst getið í Droplaugarsona sögu sem á að hafa gerst á söguöld kringum aldamótin 1000. Þá bjó þar Helgi Ásbjarnarson, sonarsonur Hrafnkels Freysgoða og fremsti höfðingi Héraðsbúa á sinni tíð, með seinni konu sinni, Þórdísi Brodd-Helgadóttur úr Vopnafirði.
Nú keypti Helgi Ásbjarnarson land það, er að Eiðum heitir, út í héraði, en seldi Mjóvanes, og þóttist þar betur kominn, er þingmenn hans voru umhverfis, og lét gera þar lokhvílu. Þórdís, kona hans, spurði hví hann vildi þar heldur land eiga, er allt var skógi vaxið að húsum heim og mátti hvergi sjá mannaferðir, þótt að garði færi. (Ísl. fornrit XI, 168) Helgi og fylgdarmenn hans höfðu barist við þá Grím og Helga Droplaugarsyni á Eyvindardal, líklega árið 998, og fellt þá báða. Grímur var endurlífgaður af Álfgerði lækni á Ekkjufelli og bjóst Helgi við hefndum frá honum. Sá ótti var ekki ástæðulaus. Nokkrum árum síðar kom Grímur að kvöldlagi í Eiða með tveimur félögum sínum þegar þar voru tugir gesta af Lambanesþingi. Um nóttina laumaðist hann inn í skálann og lagði sverði í gegnum Helga í hvílu hans sem dró hann til dauða skömmu síðar.
Því var trúað fram á 20. öld að lík Helga hefði verið heygt í hólkolli yst í gamla túninu á Eiðum, sem nefndur var Helgahaugur. Reynt var að grafa í hann snemma á 19. öld en þar fannst ekki annað en klettur. Nú er óljóst hvar Helgahaugur var eða er. Munnmæli greina frá harmi Eiðafólks eftir lát Helga, og til vitnis um það sögðu menn vera örnefnin Grát- þúfur og Hrinuhali (Hrinuhóll) þar í túni, sem nú eru líklega horfin undir skólabyggingar eða bílastæði.
Kæru Eiðavinir.
Þann 20. október árið 1919 var Alþýðuskólinn á Eiðum settur í fyrsta sinn sem þýðir að eftir tvö ár verður ein öld liðin frá þeim merka viðburði. Hefur stjórn Eiðavina ákveðið að minnast þessara tímamóta á veglegan hátt í gamla skólanum okkar á Eiðum og sýna skólanum þannig þann virðingarvott sem honum ber. Stefnt er á afmælishátíð helgina 19. - 20. október 2019 þegar nákvæmlega ein öld er liðin frá fyrstu skólasetningu.
Ánægjulegt er að greina frá því að stjórnin hefur á þessu ári átt í samstarfi við aðila sem hafa hug á að gera heimildamynd um Eiða. Stjórn Eiðavina styður heilshugar þetta framtak og mun aðstoða við þetta spennandi verkefni á ýmsan hátt. Stefnt er að því að frumsýna myndina á afmælishátíðinni.
Stjórnin hvetur alla Eiðavini til að taka frá þessa helgi eftir tvö ár.