EIÐAVINIR

- alltaf hressir -

mynd01.jpg

PóstlistiReceive HTML?

Innskráning

Bloggið hans Magga á Garði

Manntak - mannvit - manngöfgi

Þessi þrjú orð eru einkunnarorð skólans míns, Alþýðuskólans á Eiðum.

Skóla sem fæddist 1883 og dó 1995.  Um helgina fór ég frá Hellissandi austur á Fljótsdalshérað og hitti fólk sem átti það sameiginlegt með mér að hafa verið fóstrað af þessum stað um sinn. 

Fólk sem langaði til að votta staðnum virðingu sína, rifja upp gleði og sorg þeirrar veru og ýta vonandi undir það að framtíð Eiða verði bjartari en nútíð, með einhverjum ráðum.

Áður en ég lagði af stað átti ég von um skemmtilega upplifun.  Hafði fylgst með Bjössa, Bryndís, Gerðu og Jóa á fésbókarsíðunni auk þess sem ég samþykkti að sjálfsögðu þann heiður sem mér var réttur með því að bjóða mér að verða kynnir á hluta hátíðarinnar.

En ekkert bjó mig undir það sem ég upplifði held ég.  Allt frá fyrsta andartaki þegar maður labbaði inn um dyrnar salarins sem hýsti Cheerios, bjúgu og annað góðgæti eitt sinn en hafði nú hlutverk lítillar krár andaði maður að sér hreinni gleði.

Engu máli skipti hvort ég hitti fólk sem ég þekkti vel, eitthvað eða lítið.  Allir vissu að við vorum „Eiðafjölskyldan“ og værum komin í sama tilgangnum. Að njóta samveru sem um stund leyfði okkur að fara afturábak og rifja upp minningar um góðan tíma í lífinu, auðvitað fullan af bæði gleði og sorg.  En góðan tíma.

Og alveg sama er hvar hugurinn ber niður.  Fyrsta kvöldið var maður sannfærður um að eiga alla að vinum á staðnum.  Ingunn vinkona mín hóf forspilið með fallegu ljóði sem sagði svo margt sem mig langaði að segja.  Alveg magnaðar tónlistaruppákomur á sex stöðum fylgdu þar á eftir.  Í fyrsta sinn langaði mig að vera í sex pörtum til að fá að njóta alls sem var.

Stóru tónleikunum finnst mér eiginlega ekki hægt að lýsa.  Maður varð að upplifa þessa 10 klukkutíma til að geta sagt sér hvað fór fram.   Ég fékk margar gæsahúðir.  Allar hljómsveitirnar höfðu lagt metnað og sál í það sem þær gerðu.  Ég átti mér uppáhalds hljómsveitir á tónleikunum en það tengdist mínum tónlistarsmekk.  Aðrir áttu aðrar og skiljanlega.  Því allar voru góðar.  Þegar ég horfði framan í salinn á meðan ég spjallaði milli hljómsveitanna seinni partinn og um kvöldið þá ákvað ég að geyma þessa minningu fast í kollinum.  Röddin hefði mátt verða betri en það var það eina.  Mér leið undurvel vitandi það að allir tónlistarmennirnir voru klárir og allur salurinn vildi meira.  Ballið sem fylgdi var skemmtilegt en friðurinn inni á herberginu sem mér var úthlutað og vakti bara upp ljúfar og fallegar minningar þegar ég fór að sofa var skrýtinn, enda hljómsveitasviðið skammt undan.  Ég veit ég sofnaði undir tónum Hound dog, jafn brosandi og þegar ég vaknaði.

Sunnudagurinn var svo eftirrétturinn eftir aðalréttinn.  Ekki var hann síðri.  Heimafólkið stóð sig frábærlega.  Ræðan hans Kristins var svo mikið Kristinn, þarna var stjórinn sem maður þekkti.  Írónískur í fyndninni sinni, talaði blaðlaust um sögu staðarins og áminnti okkur um það að við yrðum að passa okkur á því að viðhalda ánægjunni með það sem var og ergja okkur ekki á þróun sem leiddi til þess að hlutverk héraðsskólanna varð ekkert. Ég hlustaði eftir því og hugsa mikið um það núna.

Ásgrímur Ingi ljóðaði fyrir okkur, jafnvel og Ingunn.  Ég treysti því að við fáum að sjá þessi ljóð á prenti fyrr en síðar.  Magni, Ester, Jónas og Hafþórarnir frábær.  Afslöppuð, jarðbundin og indæl en fluttu af svo mikilli tilfinningu að hún fór inn um eyrun og niður í tær.  Hápunkturinn fyrir mig var þegar þau fluttu lag sem á sterka tengingu við mömmu mína á þann hátt að það kallaði á tár, hún fékk meira að segja að „Koma heim“ á þessari helgi.  Nú er ekki bara Jónas uppáhalds tónlistarmaðurinn minn, þau eru það.  Öll fimm og ég vill sjá meira frá þeim saman!

Þar með lauk helginni í tímanum, en ég er ekki viss um að henni verði lokað svo glatt.  Eins og Ingi sagði í ljóðinu sínu þá er Eiðastaður iðandi af mannlífi, mannlífi hugans.   Eins og Ingunn sagði í sínu þá var lífið á Eiðum þar sem við upplifðum svo mikið af því „fyrsta“ í lífinu að staðurinn verður alltaf í hjartanu.

Mér telst til að ég hafi stoppað á Eiðum í 40 klukkustundir.  Ég hefði ekki viljað missa af einni mínútu þess tíma.  Það eina sem mig hefði langað til en tókst ekki er að svo mikið var um magnaðar uppákomur að maður náði ekki að tala nógu mikið við Eiðavini.  Það er svo margt sem rennur um huga manns og langaði að komast fram sem tókst ekki.  Nema í einstaka hvísli milli atriða og í morgunmatnum.

En það er ekki einu sinni nokkuð sem ástæða er til þess að ergja sig á.  Nú treystir maður á það að sú gleði sem við sem komumst í Eiða um helgina verði til þess að okkur takist að upplifa það aftur að sú samkennd sem orðin þrjú vekja með okkur, manntak – mannvit – manngöfgi, kalli á það að við höldum í þá tengingu sem orðin er til.

Þegar ég fór að sofa í Hafnarfirðinum á sunnudagskvöld þá hugsaði ég mest um þau fjögur í stjórn Eiðavina sem voru á staðnum, Bryndísi, Gerðu, Jóa og Bjössa.

Sama hvað ég myndi setja saman mörg þeirra sterkustu lýsingarorða sem ég gæti fundið til að lýsa því hvað mér finnst um framtak þeirra þá myndu þau aldrei ná yfir tilfinningar mínar.  Þau verða aldrei nógu stór.  Svo ég enda á því sama og ég setti á fésstatusinn minn á miðnætti sunnudagsins.

Auðmjúkar þakkir!

Þangað til næst, Maggi á Garði.