EIÐAVINIR

- alltaf hressir -

537202_10151683420786305_923766065_n.jpg

Póstlisti



Receive HTML?

Innskráning

Eiðaminning - Emil Skúlason

Eiðamynd

Hér fer af stað nýr þáttur á síðunni er nefnist Eiðaminning sem stjórn ákvað fyrir nokkru að setja á laggirnar. Eitt af markmiðum stjórnar er að minna á sögu staðarins og efla tengsl og samstarf Eiðavina og vonum við að þessi nýji þáttur hér á síðunni eigi eftir að færa okkur margar minningarnar frá Eiðum og um leið að efla kynni og samskipti Eiðavina. Emil Skúlason frá Borgarfirði eystra og f.v. formaður Eiðavina ríður á vaðið í þessum leik. 

 

Á mig var skorað að hefja hér nýjan kafla á síðu Eiðavina er ber heitið Eiðaminning.

Stjórnin kynnti þetta fyrir nokkru og gleymdi ég mér aðeins og biðst afsökunar á því.

Eiðaskóla kynntist ég mjög ungur vegna systkini mín fóru þangað hvert á fætur öðru og komu aðeins skrítnari heim en þau voru fyrir, var nú varla á það bætandi. Ýmsan varning báru þau með sér við heimkomu eins og  íþróttaboli,veifur og minningabækur merkt skólanum svo kom líka fyrir að um páskafrí fylgdu með þeim álíka skrítnir unglingar og þau sjálf, frá mér ókunnugum byggðalögum þannig að ég var eðlilega forvitinn um þennan skóla. Loks kom að mér að ganga þennan sama veg að hefja nám við Alþýðuskólann á Eiðum í 8. bekk árið 1980 14 ára gamall, saklaus sem lamb og feimnari en draugur. En hér kemur mín Eiðaminning frá fyrsta degi og þeim síðasta.

1. kapítuli) Sept. 1980.

Á leið minni upp á hanabjálka með foreldrum mínum var ég efins um að þetta væri rétt ákvörðun sem jókst enn frekar eftir að ég sat einn eftir á bjálkanum. Í öryggisleysi mínu þessar fyrstu mínútur saknaði ég besta vinar míns Rattata mest af öllu, hann var loðinn og mállaus en greindur mjög og hafði fylgt mér hvert fótmál síðustu ár. Mér var úthlutað eins manns herbergi við hliðina á vöskunum þar sem tannburstun og bólu förgun fór fram ef þörf var og vilji.

Formlegri skólasetningu hafði lokið fyrr um daginn og kaffisopi með foreldrum að því búnu í matsal. Að þeim formleg heitum loknum hurfu foreldra sinn veg og annar blær færðist yfir skólasvæðið.

Samstund á sal var boðuð kl 18.00 með skólastjóra fyrir kvöldverð, en eftir það var frjáls tími til útivistar. Allt gekk þetta eftir og var líf og fjör um alla ganga skólans. Skiljanlega voru áberandi krakkarnir er þekktu hverja kró, æði mörg á 2. og 3. vetri. Tíminn leið hratt þetta fyrsta kvöld og er halla fór að lokun vista safnaðist æði mikill hópur saman í sundlaugarportinu og einhver áskorun eða metnaður í gangi er endar með því að sá sem var efstur í trjánum undir sundlaugarveggnum missir takið um leið og kennari á vakt gengur út í portið. Flugu greinar og kvistir í allar áttir er drengurinn skrollaði niður með trjástofninum og kennarinn hrópaði hátt og snjallt BÓKUN! Tvístraðist hópurinn er kennari skipaði öllum á sín herbergi fyrir lokun vista og talningu, skildist mér að tímalega hefði verið slegið skólamet í ,,BÓKUN “ þetta kvöld.

Eftir þrjá vetur og einni önn betur er margs að minnast/ allir vinirnir og allt það góða fólk sem þarna starfaði/úr félagslífi skólans, íþróttakeppnir ,bekkjarskemmtanir, bíósýningar,dansleikir, tónleikar m.a Utangarðsmenn og Þeyr, andvökunætur, ferðir með Manna í Egilsstaði,vinnuferð á síldarplan vegna kaupa á billjardborði, austurlandsmót af ýmsum toga auk keppnis og lærdómsferða út um allt land tengt íþróttabraut undir stjórn hins einstaka Hermanns Níelssonar, blessuð sé minning hans. Svo urðu til allskonar orð og frasar t.d. Pældíði, pottþétt og ,,meikar ekki diff “.

2. kapítuli) Maí 1984. Lokadagur!

Við gengum heldur búralegir til skógar vinirnir er höfðum fylgst að gegnum þessi skólaár, hver með sína úttroðnu íþróttatösku í hönd sem seig aðeins í. Hlýtt var í veðri sólin skein sem ákafast og ekki bærðist hár á höfði er við komum að áfangastað. Húsatjörnin hafði brætt af sér að mestu og fuglarnir að para sig með tilheyrandi söng og látbragði. Við hófum söfnun á sprekum og fundum öruggan stað fyrir varðeldinn sem var megin efni ferðar þessar. Töskur voru nú opnaðar og við blöstu allar glósur og vinnubækur vetrarins ásamt djúsbrúsum. Drykkir voru kældir í tjörninni á meðan bardúsað var við að tryggja öryggi eldstæðisins, ekki leið á löngu þar til við vinirnir vorum sestir gleiðbrosandi umhverfis eldinn. Tutluðum við nú smá saman verkefni vetrarins í glæðurnar um leið og við rifjuðum upp tíman okkar saman á Eiðum, af ýmsum óúthugsuðum heimskupörum og líka öðru sem var betur gert.

Milli okkar hafði þróast einlæg vinátta sem var okkur kanski mikilvægari en við gerðum okkur grein fyrir á þessum tímapunkti.

En þennan minnistæða dag vorið 1984 við eldinn á bökkum Húsatjarnarinnar héldum við nokkurskonar kveðjuathöfn til Eiðaskóla og það sem allir vissu en enginn nefndi var að nú skildu einnig okkar leiðir. Lukum við athöfninni með söng og dansi að hætti rauðskinna. Gengum frá öllu sem okkur bar en flöskuskeyti varð eftir í tjörninni með nöfnum okkar. Þarna lauk þessum einstaka kafla í lífi okkar þar sem munurinn á degi eða nóttu var ekki númer eitt en þetta sem enginn nefndi en allir vissu að við mundum sakna vináttunnar og þessa tíma um ókomin ár !

Sendi pennann suður á Stöðvarfjörð til Sólmundar Friðrikssonar !

Emil Skúlason