EIÐAVINIR

- alltaf hressir -

923407_10151683489186305_1531812937_n.jpg

Póstlisti



Receive HTML?

Innskráning

Lífið eftir Eiða - Þorleifur Arnarson

15. júní 2015

Jæja þetta hafðist að lokum. Hér kemur ævisagan í mjög grófum dráttum góðir Eiðavinir.

Fyrst smávegis um árin á undan Eiðum. 
Ég er fæddur í Júlí 1968 á Egilsstöðum. Fyrstu árin bjó ég þar en flutti síðan 1971 með foreldrum mínum Erni Þorleifssyni og Elsa Þorbjörg Árnadóttir ásamt systrum mínum Árný Vaka Jónsdóttir og Anna Aðalheiður Arnardóttir út í Húsey í Tunguhreppi á úthéraði þar sem einn bróðir Hjálmar Örn Arnarson bættist í systkinahópinn. Í Húsey stunduðum við mest sauðfjárbúskap og hlunnindaveiðar á sel og fisk. Einnig voru hlunnindi af rekavið sem við nýttum. Barnaskóla sótti ég á Hallfreðarstöðum í Tungu og síðan Brúarási í Jökulsárhlíð. Eftir að ég flutti að heiman slitu foreldrar mínir samvistum og eignaðist ég tvö yngri hálfsystkini, Örn Arnarson og Arneyju Ó Arnardóttur og búa þau í Húsey ásamt föður mínum og hanns konu Laufeyju Ólafsdóttur. Móðir mín flutti á Hellu og giftist þar Jóhanni Bjarnasyni, sem því miður lést mjög skyndilega síðastliðinn vetur.

Ég var á Eiðum 1983 til 1986, samtals þrjá vetur. Á Eiðum var margt brallað og

það sem stendur uppúr er líklega hljómsveita stússið ef ég á að nefna eitthvað eitt. Ég á ekki annað en góðar minningar frá þessum tíma, margir góðir vinir sem ég eignaðist en hef því miður ekki haldið nógu góðu sambandi við eftir Eiðadvölina. En hver veit, kannski lendum við saman á elliheimili einhverntímann í framtíðinni og rifjum upp gamla takta! Nóg um það þar sem þetta á að fjalla um árin eftir Eiða.

Bæði fyrir og eftir Eiða vissi ég nákvæmlega ekkert hvað mig langaði að verða þegar ég yrði stór, þó svo að alla tíð hafi ég verið ákveðinn í að mennta mig og var það þá helst einhver iðngrein þar sem ég hefði tök á að nota hendurnar og höfuðið til að leysa mismunandi verkefni af hólmi á óskalistanum. Þar sem ég var óviss um hvaða framhaldsnám ég gæti hugsað mér fór ég að vinna. Smíðavinna varð fyrir valinu, fyrst á Egilsstöðum og síðan á Akureyri. Á Akureyri bjó ég saman með systur minni Önnu ásamt fleirum góðum námsmönnum. Það var mikið rætt um nám og þrír af þeim sem ég umgekkst voru að læra rafeindavirkjun sem hljómaði spennandi. Ég sá framtíð í því námi, þar sem tækniþróun var ör og möguleikarnir margir að mér fannst. 1987 skellti ég mér svo í Rafeindavirkjun í Verkmenntaskólanum á Akureyri. Þar var ég í tvo vetur og kláraði síðan námið í Iðnskólanum í Reykjavík og tek sveinspróf í rafeindavirkjun í framhaldinu. Ég hef aldrei haft sérstaklega mikkla þolinmæði fyrir því að sitja á skólabekk og tók ég mér því frí frá náminu eftir að ég byrjaði í Iðnskólanum í Reykjavík til að safna upp löngun á ný og skellti ég mér á sjóinn. Ég var mikið á sjónum í hátíðar og sumarfríum á milli námsanna og þar má nefna nokkur happafley sem Ottó N Þorláksson RE, Patrek BA, Arnarnes SI, Hólmatind SU og Jón Kjartansson SU, á sjónum fannst mér alveg ágætt að vera. Ég starfaði einnig við ýmislegt annað á námstímanum svo sem lagningu á ljósleiðara gegnum alla suðurfjarðarbæina frá Reyðarfirði til Breiðdalsvíkur ásamt Kambanesskriðum, í slippnum á Akureyri og dyravörður í Þjóðleikhúskjallaranum, svo eitthvað sé nefnt.
Á námsárunum í Reykjavík kynntist ég síðan ungri snót henni Kristínu Sigurgeirsdóttur frá Ólafsfirði og hófum við sambúð. Við útskrifumst síðan bæði frá Iðnskólanum vorið 1992 og áttum við þá von á barni í lok árs. Við fluttum til Akureyrar og ég fór á sjóinn á togaranum Sigurbjörgu ÓF þar sem ég komst ekki á samning í rafeindavirkjun fyrr en um haustið. Ég hef síðan störf þetta haust hjá Haftækni á Akureyri þar sem ég vann við uppsetningar og viðgerðir á siglinga, fiskileitar og fjarskiptabúnaði fyrir skip. Í December 1992 eignumst við Álfrún ljúfan og góðan dreng sem við skýrðum Tómas Val, hann er stúdent frá MR og starfar nú hjá Norska hernum þar sem hann er Sergeant og leiðir þar deild innan lífvarðarsveitar konungsfjölskyldunnar. Við Álfrún slitum sambandinu seinnipart árs 1994 og ég hætti störfum hjá Haftækni í lok sama árs. 1995 starfa ég í nokkra mánuði fyrir Rafmagnsfyrirtækið Snarvirki á Egilsstöðum sem rekið var af Unnari Heimi, sem eflaust margir þekkja hér. Í lok sumars fer ég aftur til Akureyrar og hef störf fyrir Radionaust sem viðgerðarmaður á verkstæðinu. Það starf var mest í viðgerðum á hljómtækjum, sjónvarpstækjum ásamt öllum helstu heimilistækjum sem finnast á Íslenskum heimilum í dag. Í maj 1996 hætti ég störfum fyrir Radionaust og flutti til Reykjavíkur þar sem ég hóf störf hjá Radiomidun þar sem ég vann við uppsetningar og viðgerðir á siglinga, fiskileitar og fjarskiptabúnaði fyrir skip og varð ég síðan verkstjóri þar árið 1999. Um sumarið 1999 kynnist ég núverandi sambýliskonu minni Lene Harbo Sørensen sem er Dönsk. Lene kynnist ég þegar ég er í páskafríi hjá föður mínum í Húsey, en hún var þar í vinnu við hestaþjálfun og aðstoða við búreksturinn og farfuglaheimilið sem rekið er þar. Um haustið flutti Lene inn hjá mér í Reykjavík og bjuggum við þar saman til Júní 2004 en þá fluttum við til Svendborgar í Danmörku. Í Svendborg hóf ég strax störf hjá fyrirtækinu Navteam A/S sem tæknimaður á verkstæði og starfaði við uppsetningar og viðgerðir á siglinga, fiskileitar og fjarskiptabúnaði fyrir skip ásamt tæknikegri ráðgjöf fyrir söludeild. Einnig sá ég um GMDSS (Global Maritime Distress Safety System) fjarskiptaskoðanir í skipum fyrir Dönsku Søfartstyrelsen og hin ýmsu skibsklassa félög eins og Germanischer Lloyds, Rina, Det Norske Veritas og fleiri slík. Ég hætti störfum fyrir Navteam í lok Desember 2009 og hóf í Januar 2010 störf fyrir Siminn Danmark sem var dótturfélag Símans á Íslandi. Siminn Danmark var síðan selt í Apríl 2014 til Telia og þá fluttist ég yfir til Sensa DK, sem einnig er dótturfélag Símans á Íslandi. Frá Janúar 2010 til dagsins í dag starfa ég við sölu og þjónustu á VSAT gervihnatta búnaði ásamt gervihnatta sjónvarpsbúnaði fyrir skip. VSAT er Internet samband yfir gerfihnött þar sem öll helstu samskipti milli skips og lands fara gegn.

Í sambandi við störf mín sem rafeindavirki hef ég sótt fjölda námskeiða af ýmsum toga tengdum mínum störfum og einnig hef ég ferðast talsvert og upplifað margt því tengdu.

Við Lene búum síðan árið 2004 í Svendborg á litlum sveitabæ sem er um 2 km frá Svendborg. Húsið er frá um 1780 og var í slæmu ástandi þegar við keyptum. Við erum búin að endurnýja og betrumbæta allt húsið og erum enn í ýmiskonar uppbyggingu og endurbótum á landareigninni. Það má segja að það sé okkar hobby að vinna að endurbótum, en af því höfum við mjög gaman. Einnig höfum við ánægju af að rækta allskonar grænmeti og ávexti og síðan okkur til gamans erum við með þrjá hesta og einn kött.

Ég vona að þessi skrif gefi nokkra mynd af því sem ég hef verið að bjástra við fram til dagsins í dag þó ekki nákvæmt sé og örugglega eitthvað sem ég hef gleymt að minnast á.

Ég á í miklum erfiðleikum með að útnefna næsta ævisögurithöfund þar sem mjög margir koma til greina. Mér dettur þó í hug einn gamlan skólafélaga, fyrrum nágranna og Stjörnuliðsmeðlim frá Eiðum sem hefur sýnt sig að vera góður penni og hefur skrifað marga broslega og skemmtilega pistla inn á FB. Svavar Hávarðsson ert þú til í þetta verkefni?

Eigið góðar stundir!

Þorleifur Kristján Arnarson.