EIÐAVINIR

- alltaf hressir -

537202_10151683420786305_923766065_n.jpg

Póstlisti



Receive HTML?

Innskráning

Lífið eftir Eiða - Tjörvi Hrafnkelsson

Lolli ( Þorleifur Arnarson frá Húsey ) skoraði á mig að segja frá mér og lífinu eftir Eiða og láta fylgja með minningarbrot frá verunni þar.

Uppruni
Fæddur á Egilsstöðum 16 Apríl 1969. Fyrstu 5 árin ólst ég upp í Klausturseli á Jökudal, en flutti til Eskifjarðar 1974 og ólst þar upp. Foreldrar mínir komu úr nágrannasveitnunum Jökuldalshreppi og Jökulsárhlíð, faðir minn Hrafnkell Jónsson frá Klausturseli og Sigríður Ingimarsdóttir frá Skriðufelli í Jökulsárhlíð. Pabbi lést 2007, en móðir mín býr á Egilsstöðum. Ég á eina systur Fjola Hrafnkelsdottir sem er búsett á Egilsstöðum. Ég er giftur Kristbjörg Jónasdóttir og saman eigum við þrjú börn, Töru Ösp (26 ára) , Emblu Ósk (17 ára ) og Hrafnkel Ísar ( 13 ára ). Eigum svo barnabarn á 4 ári hana Ísold Birtu.
Auk jökuldalsins og Eskifjarðar, þá hef ég búið á Hornafirði, Reykjavík, Hafnarfirði, Egilsstöðum, Bothell(Seattle) og bý núna í Redmond (Seattle )

Af hverju Eiðar?
Þegar velja átti framhaldsskóla

eftir grunnskólann, þá hafði ég bara tvo kosti að velja um, Eiða eða ME. Ég var nýfarin að glamra á hljóðfæri í lok 9 bekkjar og var undir miklum áhrifum frá dúkkulísu ofurfrænku minni Grétu Sigurjóns ( Greta Jona Sigurjonsdottir ), sem kvað Eiða var fullkominn stað til að rækta það áhugamál. Það seldi, enda kom það svo á daginn. Ég var tvo vetur á Eiðum, 1985-1987.

Hæðarferðir
Ég á mjög góðar minningar frá dvöl minni á Eiðum, ef frá er talinn vikann sem ég var rekinn heim með skömm. Reyndar var tilefnið göfugt og gott í ungmennafélags anda, þar sem ég tók þátt í að stofna ungmennafélagið Hæðarferðir. Motto þess félagsskapar var reyndar að stunda þá göfugu íþrótta að flakka á milli vistanna, Miklagarðs, Miðgarðs og Útgarðs, að næturlagi. Það reyndist ekki skilningur á þessu framtaki meðal stjórnenda skólans, sem afráðu að senda bróðurpartinn af stofnfélögum heim í a.m.k. viku og fyrir vikið þá varð starfsemi þess afar risjótt í kjölfarið.


Hljómsveitastúss átti stóran sess og ég eyddi dágóðum tíma í studíóinnu við æfingar og þá aðallega með hinni metnaðarfullu hljómsveit Pí. Stefán Jóhannsson ofurgítarleikari hafði mikil áhrif á hljómsveitarstússið á þessum árum, því a.m.k. tvö bönd höfðu nafngiftir úr Stærðfræði sem Stefán einmitt kenndi, en það voru Algebra og Pí. Í Pí vorum við fimm, ég, Lolli ( Þorleifur Arnarson ), Lalli ( Lárus Brynjar Dvalinsson ), Jói Pétur (Jóhann Pétur Jóhannsson ) og Nonna ( Jónína Elíasdóttir ). Við spiluðum nú aðallega einhver cover lög eins og t.d. summer of 69 og Nú er gaman (Deildarbungubræður), af frumsömdu efni man ég eftir afar áhugaverði lagi eftir Lolla, sem hét Snúðar með glassúr á, þar var textagerð á afar háu plani viðhöfð. Viðlagið hljómar enn í hausnum á mér.

Söfnun
Mér er afskaplega minnistæð ræðukeppni sem haldin var eftir ræðunámskeið sem Jónas Þór var með. Í vikunni sem keppnin átti að fara fram, þá hafði minn kæri vinur Helgi Hlynur Ásgrímsson keypt sér bíl, ef ég man rétt á Borgarfirði. Helgi hafði átt bílinn í ca. 10 mínútur þegar hann keyrði honum úti í skurð og eyðilagði. Þetta fékk vitanlega mikið á hann og flesta í skólanum, enda hefði getað farið mun verr. Við vorum nokkur sem tókum þetta afar nærri okkur og ákváðum að efna til söfnunnar meðal nemenda og kennara í skólanum, ég held að hver einasta kjaftur í skólanum hafi lagt þessu máli lið. Andvirði þessarar söfnunar var svo afhent Helga að lokinni ræðukeppninni. Mér eru enn minnistæð viðbrögð Helga, því ég held að sjokkið við þessu jákvæða framtaki frá skólafélögum hafi verið meira en slysið sjálft. Finnst þessi atburður vera afar góður vitnisburður um hve Eiðahópurinn gat verið samheldinn.

Eftir Eiða
Ég kláraði svo stúdentinn í ME 1989, en verkfall setti svip sinn á þá útskrift. Fór svo í Fiskvinnsluskólann í Hafnarfirði í eitt og hálft ár. Vann sem verkstjóri í fiskvinnslu aðallega á Eskifirði, en einnig í Reykjavík og á Hornafirði. Árið 1994 var eina önn í sálfræði í HÍ og 1995 sótti ég um nám í Sjávarútvegsfræði í Tromso í Noregi, bæði þessi áform voru stoppuð vegna fjölskyldaðstæðna. 1997 ákvað ég svo að sækja um af rælni í Tölvuháskóla Verslunarskóla Íslands og freista þess að læra forritun, en á þeim tíma gat ég varla kveikt á tölvu hjálparlaust. Eg hinsvegar kem mér í gegnum þann skóla og útskrifast sem Kerfisfræðingur og í kjölfarið ræð ég mig í vinnu hjá hugbúnaðarfyrirtækinu Hugur. Ég vinn hjá því fyrirtæki frá 1999-2011, en á þeim tíma skipti það regluglega um nafn og eigendur. Starfsemi þess rann svo inn í það sem heitir Advania í dag. 2004 flyt ég í Egilsstaði og flyt vinnuna frá HugAx með mér austur.

Árið 2007 stofna ég fyrirtækið Austurnet ásamt góðu fólki á Egilsstöðum. Austurnet er fyrirtæki sem hafði það markmið að fá tæknifólk á Austurlandi til að vinna saman. Þar urðu til ýmsir sprotar, verkefni og fyrirtæki. Árið 2010 reyni ég aðeins fyrir mér í pólitík og tek þátt í prófkjöri fyrir Héraðslistann á Egilsstöðum með góðum árangri. Í kjölfarið er ég kosinn inn í bæjarstjórn, en sit reyndar bara þar í nokkra mánuði því fyrirtækja sprotarnir döfnuðu hratt og ég þurfti að velja á milli stjórnmála og atvinnureksturs.

Árið 2011 stofna ég svo ásamt fleirum fyrirtækið AN Lausnir, en það var hugbúnaðarhlutinn í Austurneti var orðinn það stór að hægt var að setja rekstur í kringum það. Innan AN Lausna voru verkefni í Bandaríkjunum sem uxu hratt, sem leiddi til þess að 2012 stofnað var fyrirtækið AXnorth í kringum erlendu verkefnin með þátttöku Bandarísks fyritækis. Sama ár stofna ég líka fyrirtækið Austurfrétt, en ég hafði ásamt tveimur öðrum haldið úti vefnum austurfrett.is í hjáverkum.

Tengsl Axnorth við Bandaríska fyritækið SAGlobal gaf mér og fjölskyldunni möguleika á að flytja til Bandaríkjanna og vinna þar fyrir AXnorth með Visa stutt af SAGlobal, sem er eigandi í AXnorth. Við flytjum því til Seattle í USA í febrúar 2015, búum nánar tiltekið í Redmond sem er hluti af stór Seattle svæðinu. Við seldum því allt okkar á Íslandi, hús, búslóð og bíl. Höfum svo komið okkur þokkalega fyrir hérna í Seattle og höfum eignast hérna ótrúlega góða vini og okkur líður eins og heima hjá okkur.

Hobby
Hobbyin síðustu ár voru mikið í kringum fyrirtækja sprotanna meðan ég bjó á Egilsstöðum. Hérna úti er það að breytast, hér er t.d. hægt að hjóla endalaust í 'Bycicle capital of the Northwest' sem er Redmond og ég hef nýtt mér það. Við búum við hliðina á golfvelli og ég farin að kíkja þangað og rifja upp sveifluna. Svo er ég meira segja kominn í hljómsveit, þannig að það er smá Eiðafílingur í gangi þar.

Hvað næst?
Við munum a.m.k. dvelja hérna í USA gildistíma Visa umsóknarinnar, sem rennur út 2018. Hvað verður eftir það er ekki gott að segja.

Ég ætla að skora á Friðjón Ingi Jóhannsson að taka keflið og deila minningum frá Eiðum og segja okkur aðeins frá því helsta sem á hans daga hefur drifið síðan þá. Yfir til þín Friðjón!