Biðst velvirðingar á hve seint ég bregst við en loks lyfti ég höndum á lyklaborð til að verða við áskorun frá aldavini mínum Emil Skúlasyni, sem er einn af þessum fjalltraustu vinum sem dvölin í Eiðaskóla færði mér. Hann gaf mér leyfi til að hefna mín á sér fyrir að hafa skorað á mig, með einhverri pínlegri frásögn, en hann sleppur, því atburðurinn sem mér kom í hug gerðist á Útgarði á fyrri vetri mínum á Eiðum. Þá var Emil og fleiri góðvinir mínir í góðu yfirlæti á nýju vistinni Miklagarði og einungis 9. bekkingar sem koma þar við sögu. Ég segi söguna eftir besta minni og þó skáldagyðjan fái að vera á hliðarlínunni er sagan í meginatriðum á þessa leið:
Ógn og skelfing á Útgarði
Það var drungalegt kvöld á
virkum degi í nóvember 1982. Fullur máninn öslaði óþolinmóður yfir Eiðaskóla, í örvæntingarfullu streði við að gægjast í gegnum glufurnar á sífellt þykknandi skýjahulunni. Varð fljótt að láta í minni pokann og sást ekki meir. Það leið að lokum vistanna og á fótboltavelllinum milli vistanna mættust síðustu útilegukindurnar í ísköldum og vaxandi næðingnum, hver á leið yfir á sína vist eftir að hafa eytt kvöldinu við að krumpast inni á herbergi hjá vinum af sama eða hinu kyninu eða horfa á video í sjónvarpsstofu Miðgarðs, áramótaskaupið eða Skonrokk - í það minnsta ekki drepleiðinlega dagskrána sem Sjónvarpið bauð uppá þetta kvöldið eins og önnur.
Útgarður stóð steinrunninn, grámóskulegur og illa upplýstur af sínum gamla vana, aðeins efsta hæðin þar sem herbergi drengjanna voru skartaði ljósi í stöku glugga og útiljós yfir útidyrum. Slökkt í matsalnum og á kvistinum efst störðu líflausir gluggar tómum augum til beggja handa, eins og þeir væru ennþá ekki búnir að jafna sig á sjokkinu yfir að hafa verið endanlega lagðir af þetta árið. Á hæðinni fyrir neðan voru allir drengirnir á Útgarði komnir inn á vist, kvöldmjólkinni og kexi hafði verið gerð skil, talningu lokið og flestir inni á herbergi að hlusta á lágværa tónlist í kassettutæki og spjalla saman.
Ég sat í rólegheitum inni í herbergi 302 ásamt Óla Rúnari herbergisfélaga mínum, þegar skólafélagi okkar úr 9.B bekknum og íbúi á ytri ganginum hinum megin setustofu, birtist í dyrunum áhyggjufullur á svip. Við vorum hálf hissa yfir þessari heimsókn því þótt þessi prýðispiltur væri okkur að góðu kunnur var hann ekki tíður gestur í okkar herbergi. Hann kemur inn, lokar að sér og sest niður. Færir okkur þær fregnir að það sé eitthvað mikið að gerast og um leið tökum við eftir að einhver órói er frammi á gangi. Hann greinir frá að nokkrir strákar og stelpur hafi fyrr um kvöldið, í einu herbergjanna á ganginum, farið í andaglas. Þau hafi misst tökin á leiknum og allt farið í háaloft inni í herberginu.
Á veggnum í herberginu okkar við hliðina á hurðinni fram á gang, var hansahilla með tveimur hillum, þar sem við geymdum skóladótið okkar, möppur og bækur, vel haganlega fyrir komið þar sem plássið var af skornum skammti. Gesturinn hefur varla lokið frásögninni þegar allt dótið hans Óla Rúnars þurrkast úr efri hillunni og niður á gólf. Við lítum hver á annan í skelfingu, stökkvum á fætur og fram á gang. Í viðbót við vaxandi óróann frammi á gangi verður þessi uppákoma eins og olía á eld, sem æðir um ganginn og mikil skelfing grípur um sig. Og hópurinn, sem eftir mánaða dvöl á heimavist, var kominn með ákveðinn óskráðan og ósýnilegan virðingarstrúktur byggðan á helstu viðurkenndu eiginleikum s.s. hugrekki og töffaraskap, var nú eingöngu skipaður litlum ofurhræddum strákum sem flestir hefðu á stundinni skriðið uppí hjá mömmu og pabba ef þess hefði verið nokkur kostur.
Lætin voru nú komin yfir þolinmæðismörk ljúflingsins Eiríks Ágústsonar vistarvarðar á Útgarði, sem að lokum birtist frammi og náði að koma ró á mannskapinn og síðan öllum inn í sín herbergi. Sú sefjun náði í ljósi aðstæðna mjög skammt og ekki leið á löngu þar til dyr að herbergjunum tóku að opnast ein af annarri og eftir ganginum læddust óttaslegnir drengir á nærfötunum, haldandi á sængunum sínum og koddum. Enduðu svo allir sem einn inni öðru endaherberginu sem sneri út að skólanum, því hægra, þar sem mestu birtuna var á fá af útilýsingunum. Þar hreiðruðu menn um sig í rúmum og á gólfinu eins og plássið leyfði, og kipptu sér lítið upp við að liggja á hörðu gólfinu - öryggið umfram öllu! Loks sofnuðum við svefni hinna réttlátu með öruggan faðm Eiðaskóla fyrir utan gluggann.
Það voru þreyttir og lúpulegir piltar sem rumskuðu í morgunsárið í einni kös í einu af stóru töffaraherbergjunum þessa vetrar á Útgarði. Ennþá meiri var undrun vistarstjórans við ræsingu sem eftir að hafa gengið á tóm herbergin, kom loks að öllum drengjunum sofandi í einu herbergi. Hver og einn kom sér inn á sín herbergi og enginn minntist orði á þetta fyrr en síðar þegar menn gátu grínast með þetta sín á milli.
Eftir skóla voru allir íbúar Útgarðs kallaðir á fund í setustofunni af Kristni skólastjóra. Við héldum skiljanlega að nú ætti að áminna okkur fyrir þessa skrýtnu uppákomu gærkvöldsins, en það var öðru nær. Tilefni fundarins var skemmdarverk sem hafði verið unnið uppi á kvisti úti í enda, fjær skólanum. Þar hafði rammgerð eldvarnarhurð verið brotin upp með miklu afli á óskiljanlegan hátt. Þó svo að það hefði hvesst duglega um nóttina sagði Kristinn það ekki vera fræðilegan möguleika að hurðin hefði fokið upp, hún væri það rammgerð. Það væru því allar líkur á að einhver úr nemendahópnum hefði þarna verið að verki og böndin bærust að okkur íbúum Útgarðs. Eftir fylgdi áminning um ábyrgð, skyldur og virðingu fyrir verðmætum og eignum annarra.
Það sem vakti þó mesta furðu Kristins var ástæðan fyrir að brjóta upp hurðina sem væri í raun öryggishurð til að komast út ef bruna bæri að höndum og því opnanleg innanfrá.
Þrátt fyrir þung og alvöruþrungin tilmæli skólastjóra um að hinir seku gæfu sig fram, litum við hver á annan og enginn vissi neitt um málið. En við sem allir höfðum deilt sömu reynslu i kjölfar atburðanna kvöldið áður vorum að sjálfsögðu ekki í neinum vafa um hvaða öfl hefðu verið þarna að verki - vissum þó hver sem einn að best væri að halda þeirri skoðun fyrir sig.
Sólmundur Friðriksson
Sendi pennann á kæra Eiðasystur mína, Amalíu Björnsdóttur, sem grálambslaun fyrir að hafa sem formaður nemendafélagsins platað mig á svið á Eiðum á sínum tíma til að skemmta fullum sal af Eiða- og Lauganemum. Afleiðingarnar af því eru enn að koma í ljós og ekkert lát þar á...