EIÐAVINIR

- alltaf hressir -

923407_10151683489186305_1531812937_n.jpg

PóstlistiReceive HTML?

Innskráning

Eiðaskáld - Ingunn Snædal

Ort í tilefni Eiðagleði 

Eins og ég man það

Í lífstrénu eru sumar greinarnar grænni en aðrar

og sums staðar hellist gróskan yfir eins og hlýtt teppi

hér fæddust allar sterkustu tilfinningarnar mínar

og hérna urðu þær eftir

heitasta ástin

mest hjartanístandi sorgin

albestu vinirnir

þannig man ég það

allt var sterkast stærst mest best

dýpst fegurst hrikalegast fyndast

og myndi vara að eilífu

við leituðum að sjálfsmynd

í bleiku hári í grænu hári

í köflóttu hári og loks var

klippt í eyrað á sármóðguðum

bekkjarfélaga í herbergi 102

ég man eftir því

mínir Eiðar voru axlapúðar

Millet-úlpur bókfærslutímar

og ævinlega töpuðum við

fyrir Laugum í íþróttum

það var bruggað undir hljómsveitarpallinum

brotist inn í eldhúsið að næturþeli

birtan yfir hæðinni var röndótt þegar við

grútsyfjuð stauluðumst í vélritunartíma

(frú Valgerður á fingrasetninguna mína

skuldlaust)

innst í einni stofunni er nafnið mitt

rist í skólaborðbrún

ég man eftir keleríi undir teppi

í setustofunni

talað heim í tíkallasíma

biðröð eftir nýjustu Ísfólksbókinni

að vera Eiðanemi er svo miklu meira

en að stela úr kaupfélaginu

að vera Eiðanemi er að eiga

ómetanlegt afdrep í höfði sér

sem hægt er að heimsækja

hvar sem maður er staddur