Aðalfundur Eiðavina var haldinn í gær og má segja með sanni að það hafi verið fámennt og góðmennt á fundinum en fundurinn fór fram á höfuðborgarsvæðinu að þessu sinni en fundarmenn voru einnig á skype á Egilsstöðum.
Formaður las skýrslu stjórnar en starfsemin var mjög blómleg á liðnu ári vegna afmælishátíðarinnar sem var afar fyrirferðarmikil í starfi stjórnar. Gjaldkeri gerði grein fyrir ársreikningum þar sem fram kom að tekjur aukast úr 690.000 í 3.140.000. Það skýrir þó ekki hagnað félagsins þar sem umsvif hátíðarinnar voru mjög mikil. Þótt hagnaður hafi ekki verið mikill var hann í fullu samræmi við áform stjórnar sem setti sér það meginmarkmið að hafa allt eins ódýrt og kostur var á í kringum hátíðina til þess eins að fá sem flesta Eiðavini á staðinn. Gróði var því ekki markmið. Ný stjórn var kosin á fundinum og þakkaði formaður Birni, Hlyni, Lilju og Steinu kærlega fyrir samstarfið og bauð nýja stjórn velkomna til starfa.
Bryndís Skúladóttir sem var endurkjörin formaður en aðrir í stjórn eru þau Ásgerður Ásgeirsdóttir og Jóhann G Gunnarsson sem sitja áfram í stjórn frá fyrra ári, en nýjir meðlimir eru Hlíf Herbjörnsdóttir, Kjartan Ólafsson, Nína Midjord Erlendsdóttir og Sólveig Heiðrún Stefánsdóttir. Hér má sjá myndir af nýrri stjórn.
Stjórnandi síðunnar bað Guðrúnu Einars frá Eiðum (Rúnu prestsins) um að senda sér hugleiðinguna sem hún flutti á poppmessunni í haust. Hún brást vel við þeirri beiðni og hér birtist hún.
Hugleiðing í poppmessu á Eiðum 22. september 2013
Ég er þakklát fyrir að fá að vera hér í dag og deila þessari stund með ykkur öllum. Mér finnst skemmtilegt framtak að efna til poppmessu í tengslum við Eiðagleði. Saga Eiða og kirkju hefur lengi verið samofin. Til eru heimildir um kirkju og setu prests á Eiðum langt aftur í aldir. Andrúmsloftið á Eiðum eftir að skóli hófst mótaðist einnig af tveimur guðfræðingum sem hér voru skólastjórar þeir Ásmundur Guðmundsson síðar biskup og Þórarinn Þórarinsson.
Mig langar að nota tækifærið og skila bestu kveðju frá foreldrum mínum, sr. Einari og Sigríði, en þau sáu sér ekki fært að vera hér í dag. Í tíð pabba hér á Eiðum voru haldnar popmessur með þátttöku Eiðanema. Í þá daga var ekki algengt að nýta rafmagnsgítara og poppmúsík í helgihaldinu og er þetta því minnisstætt. Poppmessa á Eiðum í tilefni 130 ára skólahalds passar því að mínu mati vel inn í Eiða-andann.
Guð er kærleikur.
Eins og góðri prestsdóttur sæmir sótti ég oft kirkju sem krakki hér á Eiðum. Mér eru minnistæð orðin á Prédikunarstólnum í Eiðakirkju áður en hann var gerður upp í upprunalega mynd, en þar stóð: Guð er kærleikur. Ég man að ég hugsaði , er þetta þá ekki flóknara en þetta, allt þetta með Guð, þar sem kærleikurinn er þar er Guð.
Síðustu vikur, þegar ég hef hlakkað til að koma austur, hef ég velt því fyrir mér hver drifkrafturinn væri á bak við þetta allt saman. Að við komum hingað öll, þessa daga, leggjum mikið á okkur bæði við undirbúning og ferðalög. ,,Hendum“ frá okkur hversdagslegum skyldum og höldum af stað á Eiðagleði.
Hér hafa margir lagt hönd á plóg , í orði sem á borði, það er búið að snurfusa, þrífa, hreinsa, ekki af því að það væri skylda, eða í ,,þeirra“ verkahring, heldur af löngun til að hlú að þessum stað, af kærleika og væntumþykju fyrir umhverfinu, og því sem staðurinn stendur fyrir og er í okkar huga. Margir hafa lagt að baki langa leið til að vera hér og kostað miklu til. Margir eru einnig með okkur í anda nær og fjær.
Kærleikurinn knýr oss.
Þegar ég velti þessu fyrir mér, drifkraftinum sem býr að baki þessu öllu, og allt það sem fólk hefur verið tilbúið að leggja á sig, svo Eiðagleði mætti verða að veruleika, þá leiðist hugurinn að sögu úr Nýja testamentinu af lömuðum manni og vinum hans. Lamaði maðurinn gat ekki nálgast Jesú eins og hann gjarnan vildi því hann gat sig hvergi hreyft. Vinir hans fjórir tóku sig þá til og lögðu hann á börur og báru hann að þeim stað sem Jesú var og ekki nóg með það, heldur rufu gat á þakið til að láta hann síga þar niður, svo hann fengi örugglega ósk sína uppfyllta.
Þessi saga minnir mig á hvað vinir gera oft fyrir hvern annan. Við erum oft tilbúin til að leggja mikið á okkur fyrir þann eða það sem okkur þykir vænt um. Kærleikur Eiðavina í garð Eiða, finnst mér kristallast í þessari hátíð, Eiðagleði.
Vináttan og kærleikurinn er afl, sterkt afl, sem knýr okkur áfram í aðstæðum eins og þessum. Kærleikur til hvers annars og kærleikur og væntumþykja fyrir staðnum.
Sameiginleg minning.
Eiðar eiga langa sögu. Héðan eiga margir dýrmætar minningar. Hér hefur fjöldi fólks hlotið menntun og uppeldi sem enst hefur þeim út í lífið. Ég hef oft sagt að það sem ég er ekki síst þakklát fyrir að hafa lært hér og hefur komið sér vel í gegnum lífið, er vélritunarkennslan hjá Valgerði heitinni skólastjórafrú. Og auðvitað margt, margt fleira, svo sem þátttaka í íþróttum og félagslífi.
Þegar Eiða-bolirnir voru prentaðir núna um árið, þótti mér svo vænt um að sjá Eiða-merkið á þeim. Þar koma fram þrjú orð: Manntak, mannvit og manngöfgi. Öll minna þau okkur á dyggðirnar sem felast í þessum orðum. Að leitast við að bera sinn málstað fallega fram, sýna góða dómgreind og umgangast lífið af virðingu. Menntun á Eiðum var ekki eingöngu menntun í ákveðnum fögum heldur menntun í því að lifa sem manneskja.
Á Eiðum var líf og fjör á öllum árstíðum. Margir ferðamenn hafa komið við á Eiðum erlendir sem innlendir. Staðurinn á líf í huga margra. Þannig viljum við að það haldi áfram að vera. Að Eiðastaður fái áfram að gefa fjölda fólks minningar sem það getur munað eftir alla tíð. Að fólk geti áfram notið nærveru við staðinn, og umhverfið í þeim mæli sem áður var. Að Eiðar fái að njóta sín og við fáum að njóta Eiða.
Þessa daga höfum við með nærveru okkar gefið Eiðastað líf í líkingu við það sem áður var. Gleði, þróttur, uppbygging, nærvera, vinatengsl.
Við eigum það sameiginlegt að vera Eiðafólk. Okkur þykir vænt um þennan stað, hann skiptir okkur máli, og okkur er ekki sama hvað verður um hann, né hvernig hlúð er að honum, eða hvaða ákvarðanir eru teknar. Við viljum hafa áhrif á framtíð staðarins.
Á fullorðinsárum hef ég áttað mig á að ég á ekki bara mína blóðfjölskyldu ég á fleiri fjölskyldur, m.a. Eiðafjölskylduna. Það hef ég ekki síst áttað mig á þegar ég á seinni árum hef fylgt fólki til grafar sem ég ólst upp með hér á Eiðum. Hugurinn reikar óneitanlega til þeirra nú á þessari stundu og alls þess fólks sem markaði sína spor hér á Eiðum og gerði staðinn að því sem hann var. Blessuð sé minnig þeirra allra.
Það er yndislegt að koma í Eiða og fagna því sem var og því sem er og vonandi verður.
Guð blessi Eiðastað og allar minningar okkar héðan og framtíð staðarins.
Guðrún Áslaug Einarsdóttir guðfræðingur
Eins og flestir vita fékk Menntaskólinn á Egilsstöðum tölvert af eigum Alþýðuskólans á Eiðum við lok skólahalds á Eiðum 1998. Þar á meðal var íslenski fáninn á útskornum fæti eftir hjónin á Miðhúsum og Eiðafáni á bláum grunni með emmunum þremur saumuðum á. Báðir þessir gripir voru endurgerðir eftir brunann á Eiðum 1960 er þeir brunnu inni ásamt ýmsum öðrum munum. Fánarnir voru fengnir að láni á afmælishátíðina í haust og prýddu þeir báðir hátíðarsalinn glæsilega, annar út á gólfi og hinn á vegg hægra megin við sviðið. Eftir hátíðina ákvað stjórn Eiðavina að falast eftir því við ME að eignast aftur Eiðafánann og sendi formaður þvi formlega beiðni til skólanefndar. Erindinu var vel tekið og kunnum við forráðamönnum ME bestu þakkir fyrir. Fáninn prýðir því að nýju veggi Eiðaskóla.
Stjórn Eiðavina sendir öllum Eiðavinum innilegar óskir um gleðileg jól og gott nýtt ár og þakkar ánægjuleg samskipti á árinu sem er að líða. Við viljum þó sérstaklega þakka þeim sem lögðu leið sína á afmælishátíðina á Eiðum í haust og gerðu hana að þeirri eftirminnilegu gleðihátíð sem hún varð. Stjórnin vonast til að sjá sem flesta Eiðavini á Eiðagleði 2014 sem stefnt er á að halda 13.-14. sept. n.k. og verður kynnt nánar á heimasíðum Eiðavina þegar líður á veturinn.
Áfram Eiðar!
Á Eiðagleði, afmælishátíðinni sem haldin var í sept. s.l. lenti formaður Eiðavina í skemmtilegum samræðum við Stebba stjóra (Stefán Þórarinsson) um þær hugmyndir og manngildi sem liggja á bak við ,,emmin þrjú", en faðir hans Þórarinn Þórarnsson f.v. skólastjóri hannaði merkið. Stefán tók vel í þá ósk formanns að hann skrifaði smá grein fyrir Eiðavini um tilurð Eiðamerkisins, en Stefán man eftir föður sínum í djúpum pælingum við hönnuna, bæði hvað varðar inntak og útlit. Hafi Stefán þökk fyrir þetta skemmtilega innlegg hér að neðan. Bryndís Skúla, form. Eiðavina.
Emmin þrjú
Merki Eiðaskóla, tilurð og táknmál.
Upphaf skólastarfs á Eiðum má rekja allt aftur til ársins 1883. Sjötíu og fimm árum síðar, eða árið 1958, vildu stjórnendur skólans minnast þeirra tímamóta. Var það gert með margvíslegum hætti, meðal annars veglegri Eiðahátíð 9. og 10. ágúst það ár. Þetta rekur Ármann Halldórsson í bók sinni, Alþýðuskólinn á Eiðum, sem kom út árið 1983 á hundruðustu ártíð skólans.
Þar segir m.a.: ,, Enn er þess að geta í sambandi við hátíðarhöldin að gert var merki og valið kjörorð fyrir skólann. Hvort tveggja var eftir Þórarin (Þórarinsson) skólastjóra.’’
Þetta vor varð ég 11 ára og man að þróunartími þessa merkis var alllangur, bæði leit að einkunnarorðum og eins að formi merkisins. Rámar mig í ýmsar skissur sem faðir minn gerði eftir að einkunnarorðin höfðu verið valin áður en merkið tók á sig endanlegt form.
Merkið er hringlaga með þrjú hvít M á bláum grunni, lit hreinleikans, sem stækka hvert upp af öðru. Einkunnarorðin og form merkisins hafa skýra merkingu sem rétt er að varðveita því þau eru þrungin merkingu sem föður mínum var mjög í mun að halda á lofti til að skólastarfið mótaðist í þeim anda og að Eiðamenn hefðu inntak merkisins í heiðri hvar sem leið þeirra lá.
Í bréfi okkar systkina og mömmu, Sigrúnar I. Sigurþórsdóttur, til Menntaskólans á Egilsstöðum í október 1995, þar sem skólanum er heimiluð notkun merkisins sem arftaka Alþýðuskólans á Eiðum og Ragnheiður Helga systir skráði, stendur m.a. um merkið: ,,Kjörorðið er: manntak – mannvit – manngöfgi. Merkið er tákn fyrir þetta kjörorð: Þrjú hvít M á bláum grunni. Með orðunum manntak – mannvit – manngöfgi vildi skólamaðurinn og uppalandinn undirstrika að öll mannanna verk og aukin þekking eru lítils virði ef siðgæðisvitund og göfuglyndi skortir. Allt verður þetta að fylgjast að.’’
Af þeim sökum er emmið sem táknar manngöfgina stærra hinum og stendur efst. Hið hringlaga form merkisins táknar einingu þessara mannkosta sem eiga að vera aðall allra Eiðamanna. Það er á þennan hátt sem við minnumst túlkunar föður okkar á Eiðamerkinu sem Eiðavinir hafa nú gætt lífi að nýju.
Stefán Þórarinsson.
Þórarinn Þórarinsson
skólastjóri 1938-1965.
Ágæt mæting var á fyrsta kaffihúsakvöldi Eiðavina á Kringlukránni miðvikudagskvöldið 2. okt. s.l. Það var sannarlega glatt á hjalla hjá þeim 13 hressu Eiðavinum sem mættu þar og voru nokkrir að mæta á kaffihúsakvöld Eiðavina í fyrsta sinn. Það virðist vera töluverður áhugi hjá Eiðavinum að mæta á kaffihúsakvöldin í vetur og voru þó nokkrir sem vildu mæta en komust ekki og ætla sér að mæta síðar.
Umræðuefnið fór nú ekki mikið út fyrir Eiðastað en var fjölskruðugt þrátt fyrir það, að sjálfsögðu bar Eiðagleðina nýliðnu oft á góma og umræða um hvert framhaldið yrði varðandi þá gleði. Þeir sem höfðu ekki komist á hátíðina höfðu fylgst með á fb og hefur stjórn borist töluvert af fyrirspurnum frá þessum hópi um hvenær næsta hátíð verði. Það virðist vera mikill áhugi hjá Eiðavinum, bæði hjá þeim sem mættu á hátíðina og ekki síður þeirra sem ekki sáu sér fært að mæta, að endurtaka leikinn eftir nokkur. Mun stjórn taka það umræðuefni upp á næsta stjórnarfundi þótt erfitt sé að ákveða nokkuð í þeim efnum í ljósi aðstæðna á Eiðastað.
Stjórn Eiðavina hvetur alla Eiðavini til að hittast mánaðarlega á kaffihúsakvöldi á Kringlukránni kl. 20 fyrsta miðvikudag í hverjum mánuði.
Helgi Seljan er tryggur Eiðavinur. Hann sendi mér þessa fallegu kveðju í tölvupósti rétt fyrir hátíðina en þar sem er svo lélegt netsamband á Eiðum sá ég ekki tölvupóstinn fyrr en eftir Eiðagleði. Ég þakka Helga innilega fyrir kveðjuna og birti hér kveðju hans og frumort ljóð um Eiða sem hann sendi okkur.
Bryndís Skúla formaður Eiðavina.
HUGSAÐ TIL EIÐA
Hannes yrkir hér í tilefni Eiðagleði.
Eiðabragur
við lagið Ranka var rausnarkerling
Nú hátíð fer að höndum
við höldum í Eiðastað.
Með æskublik í augum
við örkum brosand´í hlað.
Við sjáum vinina sælu
safnast í eina hjörð,
úr hverju krummaskuði
frá Kongó á Vopnafjörð.