EIÐAVINIR

- alltaf hressir -

537202_10151683420786305_923766065_n.jpg

Póstlisti



Receive HTML?

Innskráning

Frétt um Eiðagleði í Austurglugganum 26.sept

Ánægður en klökkur hópur

Það voru snortnir Eiðanemar sem héldu heim af tónlistarhátíðinni Eiðagleði síðasta sunnudag. Að sögn Bryndísar Skúladóttur, formanns stjórnar Eiðavina, kom fólk víða að m.a. komu tveir erlendis frá og margir af höfuðborgarsvæðinu sem og af Austurlandi.  Eiðanemar, kennarar, starfsfólk og íbúar að Eiðum skemmtu sér alveg eins og það hafði gert á Eiðum í gegnum tíðina. Mikil stemning skapaðist á svæðinu þar sem væntumþykja, virðing og gleði var allsráðandi.

Margt tónlistarfólk steig á stokk á Eiðum þessa helgi sem í sumum tilfellum hafði ekki spilað saman í hljómsveit síðan á Eiðum fyrir tugum ára. Viðurkenndir ,,eldri borgarar" urðu rokkarar á ný, gömlu taktarnir komu aftur fram og brosið fór ekki af andlitunum.

Hátíðardagskrá á sunnudagsmorgun setti hátíðlegan blæ á samkomuna svo ekki sé minnst á poppmessu sem var í kjölfar hennar, þar sem ekki óþekktari Eiðanemar en Jónas Sig, Magni og Esther Jökulsdóttir löðuðu fram fagra stund í tali og tónum í samspili við guðfræðinginn Guðrúnu Áslaugu Einarsdóttur. Einnig léku þeir Hafþór Snjólfur Helgason og Hafþór Valur Guðjónsson undir í poppmessunni. Það var ánægður en klökkur hópur sem renndi úr hlaði á Eiðum seinni part sunnudags.

,,Hérna varð ég til"

Magni Ásgeirsson var einn þeirra sem skemmti sér og öðrum á Eiðum um helgina, en Austurglugginn náði tali af Manga í miðri smalamennsku í Borgarfirði, þar sem hann sveif enn á bleiku skýi eftir hátíðina.

,,Þetta var ólýsanlegt allt saman," sagði Magni. ,,Allir eru sammála um að Bryndís og undirbúningsnefndin hafi lyft grettistaki og jafnvel flutt fjöll, svo mögnuð var helgin. Ég hlakkaði til og bjóst við að þetta yrði skemmtilegt, en allt var svo miklu betra en mig óraði fyrir. Allt gekk eins og smurt, þarna var óendanlega mikið af fólki sem maður þekkti og ég hef ekki hlegið svona mikið lengi eða séð eins mörg bros á ævi minni.

Ég er enn hálf grenjandi af endurlitum - eða er það ekki íslenska orðið yfir flashback? Við vorum öll sammála um hve ótrúlega lyktarskynið er beintengt minningum, en þær helltust yfir mann ein af annarri þegar maður kom á vistirnar, í sundlaugina og matsalinn."

Magni var meira og minna á sviði um helgina, spilaði meðal annars í sundlauginni á setningarhátíðinni, með Trössunum á laugardaginn og í poppmessunni á sunnudaginn, auk þess að stíga á svið með hinum og þessum sveitum.

,,Ég fékk að spila með Trössunum, hetjunum mínum, en mín hljómsveit komst ekki. Þarna voru allir Trassarnir samankomnir -  Bjössi, Rúnar, Benni, Jónas og Ásgrímur Ingi, en þeir höfðu ekki spilað saman síðan á Eiðum forðum. Viðtökurnar voru svakalegar og strákarnir voru mjög hrærðir - svo mikið að ýmsar yfirlýsingar um ,,comeback" flugu um nóttina.

Þetta var allt svo frábært. Þarna komu saman hljómsveitir frá því ,,sextíu og eitthvað", menn höfðu verið að æfa sig í margar vikur og sumir keyptu sér hljóðfæri fyrir tilefnið. Helgin var öll svo falleg, haustlitirnir og umhverfið á Eiðum yndislegt. Við gátum samt ekki annað en brosað á sunnudaginn þegar fólk fór að tínast í poppmessuna - það var svolítið haust í því líka, hefur verið hærra á mönnum risið."

Sjálfur var Magni á Eiðum í skóla þrjá vetur. ,,Ég byrjaði á því að fá menningarsjokk þegar ég flutti úr fámenninu á Borgarfirði í Eiða. Ég man ekkert nema jákvætt frá þessum árum. Þarna eignaðist ég mína bestu vini og ég tek undir með þeim sem sagði þessa fleygu setningu um helgina; hérna varð ég til. Finnst hún segja allt sem segja þarf um Eiðar."

Speki dagsins

,,Þú getur tekið nemandann úr Eiðaskóla en þú nærð aldrei Eiðaskóla úr nemandanum".

Árni Áskelsson eftir Eiðagleði.

 Helgi Seljan tryggur Eiðavinur í Eiðabol. 

helgi

Eiðagleði

a salFullyrða má að tónlistarhátíðin Eiðagleði sem haldin var að Eiðum um liðna helgi í tilefni þess að 130 ár eru liðin frá stofnun Eiðaskóla, hafi farið fram úr björtustu vonum stjórnar Eiðavina Mikil ánægja var meðal allra þeirra sem sóttu tónlistarhátíðina en gestir komu víða að, m.a. komu tveir erlendis frá og margir af höfuðborgarsvæðinu sem og af Austurlandi.  Eiðanemar, kennarar, starfsfólk og íbúar að Eiðum komu þar saman og skemmtu sér alveg eins og það hafði gert á Eiðum í gegnum tíðina. Mikil stemning skapaðist á svæðinu þar sem væntumþykja, virðing og gleði var allsráðandi.

Margt tónlistarfólk steig á stokk á Eiðum þessa helgi sem í sumum tilfellum hafði ekki spilað saman í hljómsveit síðan á Eiðum fyrir tugum ára. Viðurkenndir "eldri borgarar" voru skyndilega orðnir rokkarar aftur, gömlu taktarnir komu aftur fram og brosið fór ekki af andlitunum. Skemmtilegir smátónleikar eftir setningu hátíðarinnar í hádeginu á laugardaginn settu síðan svip sinn á ýmsa eftirminnilega staði á Eiðum eins og sundlaugina, verknámshúsið, kirkjuna og íþróttasalinn.

Hátíðardagskrá á sunnudagsmorgun setti hátíðlegan blæ á samkomuna svo ekki sé minnst á poppmessu sem var í kjölfar hennar, þar sem ekki óþekktari Eiðanemar en Jónas Sig, Magni og Esther Jökulsdóttir löðuðu fram fagra stund í tali og tónum í samspili við guðfræðinginn Guðrúnu Áslaugu Einarsdóttur og nafnana Hafþór Helgason og Guðjónsson sem léku undir með þeim. Það var ánægður en klökkur hópur sem renndi úr hlaði á Eiðum seinni part sunnudags.

Stjórn Eiðavina þakkar öllum sem tóku þátt í því að gera hátíðina að þeirri gleðihátíð sem hún varð, innilega fyrir sitt framlag; tónlistarfólki, hjálparhellum okkar bæði fyrir/eftir og á Eiðagleði og ekki síst gestum hátíðarinnar. ÁFRAM EIÐAVINIR.

Um fjármál Eiðavina

Eflaust eru einhverjir að velta fyrir sér hvað verður um innkomuna sem kemur í kassann afmælishelgina á Eiðum. Það eru fullt af kostnaðarliðum sem falla til, svo sem að leigja hljóðkerfi, ljósakerfi og mixermann fyrir tónleikana til að gera þá sem flottasta. Einnig mun stjórnin opna formlega nýja heimasíðu Eiðavina um þessa helgi og er ætlunin að láta ágóðann renna upp í hana. Heimasíðan er hluti af áætlun stjórnar á þessu starfsári sem snýst um að ná til sem flestra Eiðanema. Töluvert fjármagn fer líka til Fimleikadeild Hattar (iðkendur og foreldrar) sem mun sjá meira og minna um alla þjónustu á laugardegi og sunnudegi því þeir fimm stjórnarmeðlimir sem verða á svæðinu ráða engan veginn ein við þetta stóra verkefni þótt þekktir séu fyrir dugnað. Fimleikadeildin mun sjá um að afgreiða okkur í sjoppunni og barnum, bera mat á borð, þrífa og gera allt annað sem þarf að gera á stórri samkomu.
Svo er hráefniskostnaður við fóðursölu og einnig þurfum við að greiða fyrir öryggisgæslu á staðnum og leyfiskostnaður er töluverður s.s. leyfi til samkomuhalds og áfengisleyfi.
Þrátt fyrir að stjórnarmeðlimir hafi verið útsmognir við að lauma sér inn í stærstu fjölmiðla landsins í gegnum vini og kunningja er auglýsingakostnaður upp á marga tugi þúsunda. Við þurfum að greiða aðstöðugjald bæði í Barnaskólanum svo og í Alþýðuskólanum en það verður þó háð innkomu.
Þetta eru stærstu útgjaldaliðirnir en svo er töluvert af öðrum kostnaði sem er ótalinn hér.

Aðgangur að lokuðum svæðum

Félagar í Samtökum Eiðavina geta fengið aðgang að lokuðum svæðum, sem m.a. geyma fundargerðir stjórnar og fleira tengt starfsemi félagsins.

Hér til hliðar er Innskráning og þar er tengill á "Búa til aðgang".  Skráningarbeiðni berst þá til vefstjóra sem ákveður hve mikil réttindi viðkomandi aðili fær.

Skráning á póstlista hafin

Skráning á póstlista er hafin.

Nú geta allir skráð nafn sitt og netfang hér til hliðar og eru þá orðnir áskrifendur að Fréttabréfi Eiðavina.