EIÐAVINIR

- alltaf hressir -

417678_10150612891575954_1000650793_n.jpg

Póstlisti



Receive HTML?

Innskráning

Eiðaskáld - Helgi Seljan

Helgi Seljan er tryggur Eiðavinur. Hann sendi mér þessa fallegu kveðju í tölvupósti rétt fyrir hátíðina en þar sem er svo lélegt netsamband á Eiðum sá ég ekki tölvupóstinn fyrr en eftir Eiðagleði. Ég þakka Helga innilega fyrir kveðjuna og birti hér kveðju hans og frumort ljóð um Eiða sem hann sendi okkur.  

Bryndís Skúla formaður Eiðavina.

HUGSAÐ TIL EIÐA

Lítill en ágætur hópur Eiðafólks sem var í skólanum í kringum 1950 hefur stöku sinnum komið saman til að „rifja upp og reyna að muna“, eins og Tómas skáld sagði, eitthvað frá Eiðadvölinni. Alltof margir úr þeim hópi hafa kvatt mannlífssviðið, en á einum slíkum fundi var þetta kveðið. Mér þótti við hæfi eftir að hafa fagnað þeirri Eiðahátíð sem getið var um í síðasta Austurglugga að láta þetta flakka til birtingar.

 

Til hamingju Eiðavinir og sannarlega eru margir sem hugsa til ykkar þakklátum huga fyrir ljómandi framtak.

 

Eiðaríma

Á ævinnar langferðaleiðum

skal ljúfustu minningar eiga.

Þær hér munu helgaðar Eiðum,

sem heiðríkju geyma mega.
Þar æskunnar von hafði völdin,

sem vakti okkur táp og þor.

Við gægjumst svo títt bak við tjöldin

og tölum um eilíft vor.

 

Við munum nú bezt hið bjarta,

er blessun veitti og yndi.

Það vefst okkur hlýtt að hjarta

og huganum ylja myndi

að veita á vinafundum

vorsins gleði á ný

frá umliðnum æskustundum.

Aldrei skal gleyma því.

 

Er ómur æskunnar daga

ymur úr fjarlægð sinni,

ennþá er sögð mörg saga,

sálin geymir þær inni.

Ætíð það léttir lundu

að leita á gömul mið.

Gjöfult á góðri stundu

er gleðiríkt sólskinið.

 

Hér kemur nú hópurinn saman

á hefðaraldurinn lagður.

Að þessu er gagn og gaman,

því gjöfull er tíminn sagður.

Þá öðlast dagar á Eiðum

aftur dýrmætan hreim.

Á okkar langferðaleiðum

leiðsögn það veitir heim.