EIÐAVINIR

- alltaf hressir -

59170_10201410827747116_1724405545_n.jpg

PóstlistiReceive HTML?

Innskráning

Með varðskipi úr jólafríi í Eiða.

Það urðu sannarlega miklar breytingar á samgöngum á þeirri rúmu öld sem Eiðaskóli starfaði. Fram eftir öldinni hafa nemendur líklega allir komið gangandi eða ríðandi í skólann og heim á vorin en um og eftir miðja öldina urðu miklar breytingar á samgöngum og nemendur komu flestir akandi  og síðar með flugi  til og frá skóla. Flestir með tilhlökkunar og spennuhnút í maga - en aðrir með kvíðahnút.

Það lá mikið við að koma unglingunum í skólann, þannig

var það allavega á Borgarfirði seint á áttunda áratugnum þegar ég var á Eiðum. Þegar jólafríi okkar Valgeirs bróður míns lauk í jan. 1977 leit ekki vel út með það að komast í Eiðaskóla á réttum tíma. Vatnsskarð var ófært og líklega ekki rutt í þá daga nema 1x í viku. Það leit ekki heldur vel út með flug daginn sem við áttum að mæta í skólann en á þessum tíma flaug Flugfélag Austurlands daglega á Borgarfjörð frá Egilsstöðum.

Veður var leiðinlegt um morguninn þegar átti að byrja að fljúga, en skyndilega birti yfir í firðinum og það var hringt í Framnes og tilkynnt að flugvélin væri að koma sína fyrstu ferð til að sækja flugfarþega. Það komust ekki nema 4 farþegar í hverja vél svo það tók nokkrar ferðir að flytja Borgfirðinga úr jólafríi. Ég átti að fara með síðustu og fjórðu flugferðinni ásamt Valgeiri, Agli Eiðs og Jóni Braga. En viti menn, það dimmdi yfir rétt eftir að vélin tók á loft frá Bf. í þriðju ferð sinni og við fjögur orðin veðurteppt á Borgarfirði. Ég man að ég var hálf fúl með þetta því ég var farin að hlakka til að komast aftur í gleðskapinn á neðsta gangi á Eiðum. Á neðsta gangi Miðgarðs hafði myndast mikill vinskapur þar sem herbergið okkar Gerðu vinkonu minnar fylltist nær hvert kvöld af stelpum með mjólkurglas og Frón kex þar sem var heldur betur glatt á hjalla. Og enn hittist hluti þessa hóps nokkrum sinnum á ári, en nú á framandi veitingastöðum í borginni og búið að kveðja hundakexið að fullu (að því að ég best veit....:) 

En hvað um það,  aftur að ófærð á Borgarfirði! Eg hef ekki enn fengið vitneskju um það hver það var sem hafði samband við varðskip sem var á siglingu út af Borgarfirði og bað skipstjóra um að sigla inn fjörðinn og kippa um borð fjórum  unglingum á leið í Eiðaskóla. Í leiðindaveðri og sjógangi. Líklega metnaðarfullt foreldri þar að verki. Og varðskipið var komið inn á fjörð skömmu síðar en það var það mikill sjór að ekki var hægt að leggjast að bryggju. Var gúmmítuðru skotið út á varðskipinu og við komumst um borð við bryggju og príluðum upp í varðskipið úti á firði í nokkrum öldugangi. Það var tekið vel á móti okkur um borð og við fengum að vera að mestu upp í brú hjá skippernum  þar sem við fylgdumst með ströndinni og sjóganginum sem var nokkur og pusaðist vel yfir skipið. Ég hugsa um það núna að það hlýtur að hafa verið erfitt fyrir Jón Braga heitinn að sigla þessa leið í töluverðum sjógangi þar sem faðir hans hafði drukknað á bát sínum í slæmu sjóveðri aðeins nokkrum árum áður á þessari  sömu sjóleið.

Varðskipið tók strax stímið suður á bóginn og stefnan tekin inn á Seyðisfjörð þar sem okkur var skutlað á land. Þar beið okkar bíll sem Kristinn skólastjóri hafði sent eftir okkur því Fjarðarheiðin var fær. Við vorum komin í Eiða seinni part dags og ég man að þrátt fyrir biðina eftir fluginu um morguninn, skipsferð frá Borgarfirði á Seyðisfjörð og akstur þaðan í Eiða urðum við á undan Breiðdælingum og Stöðfirðingum  í skólann. Þeir mættu í rútu um kvöldmatarleitið og urðu miklir fagnaðarfundir.

Þrátt fyrir of mörg köld og blaut ævintýri á Vatnsskarði í gegnum árin man ég ekki eftir að hafa lent í klandri þar á Eiðaárum mínum en ég veit að það voru ekki allir árgangar eins heppnir og við.

Það væri gaman að fá frásagnir af skrautlegum vetrarferðum til og frá Eiðum á skólaárum ykkar kæru Eiðavinir, því eflaust hafa þeir nemendur sem bjuggu í byggðarlögum næst Eiðum stundum gengið hluta leiðar til að komast í frí. Og sjálfsagt hafa rúturnar með fjarðakrakkana líka lent í brasi í snjónum. Ef þið lumið á skemmtilegri frásögn þá endilega leyfið okkur að heyra frá því hér á síðunni, held allir hafi gaman að. Eða spyrjið foreldra ykkar, þá sem voru á Eiðum um fararmáta þeirra í skólann forðum daga. 

 

Með góðri kveðju til ykkar kæru Eiðavinir.

Bryndís Skúla