EIÐAVINIR

- alltaf hressir -

mynd03.jpg

PóstlistiReceive HTML?

Innskráning

Fróðleiksmolinn - Eiðar fyrr á tíð.

Góðan daginn kæru Eiðavinir.

Hlutverk okkar í stjórn Eiðavina er m.a. að hefja til vegs og virðingar sögu Eiða. Við ætlum nú á næstu mánuðum að rifja upp hitt og þetta í sögunni og hér er smá pistill um Eiða fyrr á tíð. Textinn er fenginn úr ritinu Eiðasaga 1000-1998 sem þeir unnu í sameiningu Helgi Hallgrímsson og Skúli Björn  Gunnarsson. Við stefnum að því að uppfræða ykkur um söguna þannig að þegar þið mætið í aldarafmæli Alþýðuskólans eftir tvö ár ættuð þið að vita allt um söguna:) Spurning um að brydda upp á spurningakeppni þar að lútandi eins og oft var á skemmtikvöldum á Eiðum hér áður fyrr á árum. 

Njótið lestursins. 

 

Eiða er fyrst getið í Droplaugarsona sögu sem á að hafa gerst á söguöld kringum aldamótin 1000. Þá bjó þar Helgi Ásbjarnarson, sonarsonur Hrafnkels Freysgoða og fremsti höfðingi Héraðsbúa á sinni tíð, með seinni konu sinni, Þórdísi Brodd-Helgadóttur úr Vopnafirði.

Nú keypti Helgi Ásbjarnarson land það, er að Eiðum heitir, út í héraði, en seldi Mjóvanes, og þóttist þar betur kominn, er þingmenn hans voru umhverfis, og lét gera þar lokhvílu. Þórdís, kona hans, spurði hví hann vildi þar heldur land eiga, er allt var skógi vaxið að húsum heim og mátti hvergi sjá mannaferðir, þótt að garði færi. (Ísl. fornrit XI, 168) Helgi og fylgdarmenn hans höfðu barist við þá Grím og Helga Droplaugarsyni á Eyvindardal, líklega árið 998, og fellt þá báða. Grímur var endurlífgaður af Álfgerði lækni á Ekkjufelli og bjóst Helgi við hefndum frá honum. Sá ótti var ekki ástæðulaus. Nokkrum árum síðar kom Grímur að kvöldlagi í Eiða með tveimur félögum sínum þegar þar voru tugir gesta af Lambanesþingi. Um nóttina laumaðist hann inn í skálann og lagði sverði í gegnum Helga í hvílu hans sem dró hann til dauða skömmu síðar.

Því var trúað fram á 20. öld að lík Helga hefði verið heygt í hólkolli yst í gamla túninu á Eiðum, sem nefndur var Helgahaugur. Reynt var að grafa í hann snemma á 19. öld en þar fannst ekki annað en klettur. Nú er óljóst hvar Helgahaugur var eða er. Munnmæli greina frá harmi Eiðafólks eftir lát Helga, og til vitnis um það sögðu menn vera örnefnin Grát- þúfur og Hrinuhali (Hrinuhóll) þar í túni, sem nú eru líklega horfin undir skólabyggingar eða bílastæði.