Lifnað gæti yfir Eiðastað á Fljótsdalshéraði og hótelrekstur hafist þar á nýjan leik ef hugmyndir fjárfesta ganga eftir. Guðröður Hákonarson einn þeirra sem reka Hildibrand hótel í Neskaupstað hefur gert tilboð til félags í eigu Sigurjóns Sighvatssonar um kaup á Eiðastað.
Guðröður segir......
í samtali við Fréttastofu að stefnan sé að reka þar hostel, gistingu með sameiginlegri salernisaðstöðu. Lítil umsvif hafa verið í húsnæði gamla Alþýðuskólans á Eiðum í rúman áratug en Sigurjón Sighvatsson keypti Eiða árið 2001 og kynnti tveimur árum síðar stórtækar hugmyndir um uppbyggingu staðarins sem alþjóðlegs menningarseturs. Ekkert varð af þeim áformum. Hótel Edda leigði hluta húsnæðisins á sumrin en hætti því meðal annars vegna þess að fráveita uppfyllti ekki kröfur og olli saurgerlamengun í Eiðalæk. Guðröður segir áætlun tilbúna um úrbætur á staðnum og að stefnt sé að opnun eftir næstu áramót.
Fljótsdalshérað á forkaupsrétt að eigninni. Á fundi bæjarráðs í morgun fór Guðröður þess á leit að bærinn félli frá forkaupsrétti og samþykkti bæjarráð að leggja til við bæjarstjórn að það yrði gert. Eiðastað fylgir talsvert land, fagurt, skógi vaxið og einnig Eiðavatn og Húsatjörn. Samkvæmt samningi sem Guðröður kynnti bæjarráði yrðu 60 hektarar lands undanskildir, svæði sem liggur syðst næst Fljótsbakka. Sá hluti yrði áfram í eigu Stóru Þinghár ehf. sem Sigurjón Sighvatsson fer fyrir.
Uppfært 18:32
Sigurjón Sighvatsson vildi í dag ekki staðfesta að Eiðar yrðu seldir. Heldur væri um að ræða samningaviðræður við Hildibrand Hótels um aðkomu fyrirtækisins að uppbyggingu og framtíð Eiðastaðar.
Það er ósk stjórnar að samningaviðræður gangi sem allra best og starfsemi hefjist sem fyrst í gamla skólanum okkar!