Á Eiðum
Menn gengu undir göfugu merki
gjöfull var hugurinn þá.
Samhugur sýndur í verki
saga okkar greinir því frá.
Þeir blésu nýju lífi í alþýðuandann
um Austurlandið heyrðist lofsöngur hans.
Lærimeistararnir leystu hvern vandann
og lánaðist að koma flestum til manns.
Ó, fögur orðin voru á Eiðum
manntakið þar allt
mannvit þúsundfalt
göfgi manna skein svo skær og hrein.
Ó, hve yndislegt var hér á Eiðum
ótal minningar,
myndir allsstaðar
sem meitlast hafa hér í huga þér
Hérna kvað æskan sín kvæði
og kyrjaði einstakan róm.
Þótt einhverjum fipaðist fræðin
Þeir fundu að lokum sinn hljóm.
Löngum milli hæða laumast á kvöldin
leyndarmálin gerðust rökkrinu í.
Sögu marga geymir síðasta öldin
og sumar hverjar ávallt lifna á ný.
Ó, við eignuðumst svo margt á Eiðum
um haust og vetur, vor
vini, kjark og þor
jafnvel æskuást sem aldrei brást.
Ó, ýmislegt var gert á Eiðum
Ég fornu fræðin las
fór í andaglas.
Vofa gömul var á vappi þar.
Þar voru Marsinn og mótin
mörg voru táraböll sótt,
drengur og dálagleg snótin
á Desinum langt fram á nótt.
Í öllum skúmaskotum hljóðnað nú hefur
horfinn er í burtu nemendafjöld.
En úti á vatni ennþá vakir og sefur
virðulegur Hólminn öld eftir öld.
Ó, andinn svífur enn á Eiðum.
Við erum Eiðamenn
eigum saman enn
Eiðagleðistund með hal og sprund.
Ó, ákall hefjum við að Eiðum
Við unnum þessum stað
óskum honum að
hann hefjist upp til vegs og virðingar
Alþýðuskólinn á Eiðum.
Frumflutt á Eiðagleði 14. sept 2014 og var þar tileinkað Hermanni Níelssyni.
Sigþrúður Sig