Kæru Eiðavinir, hér kemur Fróðleiksmoli nr. 2.
Í haust verða 80 ár liðin síðan fyrstu rafljósin voru kveikt á Eiðum og mun stjórnin örugglega minnast þessa með einhverjum hætti á Eiðum í haust.
Við vonum við að þið hafið gaman af að lesa þessa fróðleiksmola sem við reynum að setja hér inn mánaðarlega.
Ljósaskipti á Eiðum
Rafvæðing Eiðaskóla hafði verið eitt helsta baráttumál stjórnenda hans frá 1926 þegar Hannes Arnórsson skoðaði aðstöðu til virkjunar Fiskilækjar. Áskoranir Eiðamanna og Alþingis 1932-1933 skerptu á því. Í maí 1934 sendi Jakob skólastjóri erindi til ráðherra um þetta efni sem endaði hjá Rafmagnseftirliti ríkisins.
Í ágúst 1934 var Sigurður Thoroddsen verkfræðingur tvær vikur við mælingar á Eiðum. Auk Fiskilækjar kannaði hann Gilsá við Ormsstaði, en niðurstaðan varð að hagstæðast væri að virkja Fiskilækinn. Sá böggull fylgdi skammrifi að hækka varð vatnsborð Eiðavatns um tvo metra til að auka fallhæð í 12 m og fá hæfilega vatnsmiðlun. Til þess þurfti að stífla vatnið á þremur stöðum.
Um haustið samþykkti Alþingi 50 þús. kr. fjárveitingu til virkjunar á fjárlögum 1935. Það sumar var virkjunin byggð og tilheyrandi stíflur og leiðslur lagðar. Rafmagnseftirlitið sá um undirbúning og framkvæmd en skólastjóri um reikningshald.
Rafljósin kveikt
Þann 30. nóvember 1935 var hægt að kveikja rafljós á Eiðum og 1. des. var haldin þar ljósahátíð með samkomu í skólanum að venju. „Eiðaskóli mun lengi minnast ljósaskiptanna sem urðu á Eiðum, og hinna stórkostlegu þæginda er hann varð þá aðnjótandi“, ritar Jakob í skólaskýrslu ársins.
Brátt kom í ljós að vatnsskortur háði virkjuninni. Sumarið 1937 voru veitumannvirki byggð. Vatni var veitt úr Gilsá í um 2 km löngum skurði gegnum holt, mýrar og móa vestur í Eiðalæk. Árið 1938 afhenti ríkisstjórnin Eiðaskóla rafveituna til eignar og rekstrar og sama ár var keypt dísilvél sem notuð var á álagstímum. Samveiturafmagn kom í Eiða 1962 og 1965 var rafstöðin lögð niður. Stöðvarhúsið stendur enn við Lagarfljót svo og stíflur, því ekki hefur þótt fært að lækka aftur í Eiðavatni.
Eiðasaga 1000-1998. Samantekt Helga Halldórssonar og Skúla Björns Gunnarssonar. Gefið út á vegum Samtaka Eiðavina.