EIÐAVINIR

- alltaf hressir -

537202_10151683420786305_923766065_n.jpg

PóstlistiReceive HTML?

Innskráning

Fróðleiksmoli 1- Aðdragandi skóla á Eiðum

Eitt af hlutverkum stjórnar er að efla fræðslu um sögu, menningu og náttúrufar Eiðastaðar og er heimasíðan ma. hluti af viðleitni stjórnar til að ná því markmiði. Nú ætlum við að gera enn betur og hleypa af stokkunum nýjum þætti hér á heimasiðunni sem við deilum síðan inn á facebooksíðu Eiðavina. Við köllum þetta Fróðleiksmolann en hér ætlum við að rifja upp ýmislegt í sögu og menningu gamla skólans okkar. Stuttir fróðleiksmolar munu detta inn á síðurnar með nokkurra vikna millibili og vonum við að Eiðavinum lítist vel á þessa nýjung og lesi sér þetta bæði til gagns og gleði.  

 

Aðdragandi skóla á Eiðum

Eins og flestir Eiðavinir vita var upphaflega stofnaður búnaðarskóli á Eiðum og alþýðuskólinn kom ekki til fyrr en 1917. Jón Sigurðsson forseti var mikill hvatamaður að menntun og skólagöngu ungra Íslendinga. Hvatti Jón unga menn að læra búvísindi m.a. við búnaðarskólann í Stend í Noregi, en Jón þekkti skólastjórann þar persónulega. Í framhaldi af því fara nokkrir ungir menn af Fljótsdalshéraði til náms í Stend árið 1875 en það voru m.a. þeir Guttormur Vigfússon frá Geitagerði og  Jónas Eiríksson frá Skriðuklaustri. Þeir urðu síðar báðir skólastjórar við Búnaðarskólann á Eiðum  en stofnun búnaðarskóla á Austurlandi var ákveðin á fundi Múlasýslna á Miðhúsum þann 20. júní 1881. Nefnd sem sett var á fót til að finna hentuga jörð mælti með kaupum á Eiðastóli.

Múlasýslur tóku lán hjá Landssjóði til kaupanna en svonefndur öskusjóður var notaður til að greiða stóran hluta hins nýja skóla. Sá sjóður hafði safnast í samskotum erlendis þegar Askja gaus 1875. Barst askan til annarra landa svo fólk þar reiknaði með að það væru miklar hörmungar hér heima á Íslandi, enda fóru mörg býli í Múlasýslum í eyði eða stórskemmdust.

 

Heimildir: Eiðasaga Benedikts Gíslasonar frá Hofteigi, 1958. Eiðasaga hefti 1000 - 1998, samantekt Helga Hallgrímssonar og Skúla Björns Gunnarssonar.