Sumarkveðja til Eiðavina

Stjórn Eiðavina óskar öllum Eiðavinum gleðilegs sumars og þakkar fyrir veturinn.

Í tilefni sumarkomu er gaman að krydda síðuna okkar með ljúffengum krásum úr fórum þeirra sem gengu menntaveginn á Eiðum. Einn af þeim sem skilur mikla gullnámu eftir sig er skáldið og Bakkfirðingurinn Kristján frá Djúpalæk sem var á Eiðum 1936-37 þá tvítugur að aldri. Á Eiðum kynntist Kristján Unni Friðbjarnardóttur ungri heimsætu úr Hörgárdal sem hann kvæntist og bjó með til dauðadags. Kristján hrósaði alla tíð kennslu og handleiðslu Jakobs Kristinssonar skólastjóra á Eiðum meðan hann var þar við nám.

Kristján þótti....

of afkastamikið skáld, of alþýðlegur, jafnvel svolítið sveitó, og ekki alltaf nægilega vandvirkur fyrir bókmenntaelítuna sem réði skrifum um bókmenntir. Á endanum hætti Kristján að skrifa fyrir þennan skoðanamyndandi hóp og tók til við að skrifa eingöngu fyrir alþýðufólkið og börnin.

Eiðavinir gera sér kannski ekki grein fyrir hve Eiðaneminn Kristján frá Djúpalæk kemur mikið við sögu í daglegu lífi okkar, a.m.k þeirra sem hlusta eitthvað á tónlist. Hver kannast ekki við „Nótt í Atlavík,“ „Hreðavatnsvals“ „Kvöldið er okkar“ svo ekki sé minnst á söngtextana í „Dýrunum í Hálsaskógi“ og „Kardimommubænum“. Hljómplata Villa Vill „Með sínu nefi" sem kom út 1976 geymir frumsamin ljóð og texta Kristján frá Djúpalæk“.

Listinn er miklu lengri, en þessi upptalning segir okkur hve vinsæl tónlist Kristjáns er ennþá og vekur ekki síður upp hrifningu unga fólksins í dag. A.m.k. hrifust ungir og efnilegir tónlistarmenn úr Mosfellsbæ fyrir uþb. 2 árum svo af ,,Kvöldið er okkar" að þeir útsettu lagið á sinn hátt og sungu sig inn í hjörtu þjóðarinnar og unga fólkið fór aftur að syngja " vor í Vaglaskógi." Mér segir svo hugur að Kaleo-strákarnir eigi Kristjáni frá Djúpalæk að hluta til að þakka hvar þeir eru staddir í dag, með góðan tónlistarsamning í USA. Gaman er að geta þess að trommuleikarinn í Kaleo er ættaður frá Seyðisfirði og margt skyldmennið við nám á Eiðum.

Njótið dagsins kæru Eiðavinir hvar sem þið eruð staddir á landinu - og í hvaða veðri sem er, það snjóar t.d. á formanninn milli þess sem sólin sendir geisla sína gegnum sortann og minnir á að sumarið er sannarlega í nánd.

Hlustum á Kaleo strákana í tilefni dagsins flytja ,,Kvöldið er okkar" á fallegu myndbandi sem þeir gerðu við ljóðið.

Vor í Vaglaskógi - Hljómsveitin Kaleo