Líf og gleði framundan hjá Eiðavinum.

 Kæru Eiðavinir.Untitled BS

Þótt ekki heyrist mikið frá stjórninni erum við sífellt að vinna að málefnum Eiða og reyna að ná markmiðum þeim sem við settum okkur. Við erum sko langt frá því að vera af baki dottin og var aldeilis fjörugur skypefundur hjá okkur fyrir nokkru síðan þar sem við lögðum upp starfsáætlun fyrir árið. Má segja að áherslur okkar í þessu plani beinist fyrst og fremst að því að styrkja og viðhalda tengslum og samstarfi Eiðavina í gegnum fjölbreytta viðburði ásamt því að efla fræðslu um sögu og menningu staðarins.  

Við ætlum m.a. að koma á ný fjörugu lífi á heimasíðu og fb. síðu Eiðavina.  Á næstu dögum mun keðjuleikurinn Eiðavinur vikunnar fara af stað á ný. Auk þess verður bryddað upp á nýjungum eins og fróðleikskornið og eftirminnilegasta atvikið/viðburðurinn frá Eiðum. 

 

Af samkomuhaldi er það helst að frétta að ákveðið var að halda aftur ball á Eiðum í haust og stefnt að því að það verði fastur viðburður á Eiðum. Þrátt fyrir að færri hafi komið í Eiða í haust en við vonuðumst til og að við styttum dagskrána, þá heppnaðist samkoman vel. Við stefnum að mat á laugardagskvöldi og dansleik í kjölfarið og bjóða upp á gistingu.

Auk þess munum við í samstarfi við UÍA  halda lítið íþróttamót á laugardeginum til minningar um Hermann Níelsson.  Dagsetning og nánar um dagskrá kemur fljótlega í ljós.

 

Stjórnin hefur einnig áhuga á að mæta þörfum þeirra fjölda Eiðavina sem búa á höfuðborgarsvæðinu og stefnir að samkomu í borginni á næstu vikum en suðurarmur stjórnarinnar þau Ásgerður Ásgeirs og Kjartan Ólafs munu vera að kanna það mál og mun heyrast frá þeim hér á fb. innan tíðar.

 

Auk þessa hittast Eiðavinir á kaffihúsi 1x í mánuði í Reykjavík, Akureyri og Egilsstöðum.

 

Mig langar að lokum að vekja athygli ykkar á því kæru Eiðavinir að ÞIÐ eruð lykillinn að þessum samkomum. Áhugi ykkar og þátttaka eru grundvöllurinn fyrir þeim viðburðum sem við erum að reyna að koma á. Ég hvet alla Eiðavini til þátttöku á viðburðum okkar og að vera virkir inn á samfélagsmiðlunum okkar.  Flest okkar eigum Eiðum mikið að þakka, eða eins og einhver merkur Eiðavinur mælti ,,Þarna varð ég til". Tökum þátt!

 

Stefnt er á aðalfund Eiðavina að Eiðum föstudagskvöldið 8. maí kl. 20:30.

 

Með hlýrri kveðju.

Bryndís Skúla, formaður stjórnar