Frétt um Eiðagleði í Austurglugganum 26.sept

Ánægður en klökkur hópur

Það voru snortnir Eiðanemar sem héldu heim af tónlistarhátíðinni Eiðagleði síðasta sunnudag. Að sögn Bryndísar Skúladóttur, formanns stjórnar Eiðavina, kom fólk víða að m.a. komu tveir erlendis frá og margir af höfuðborgarsvæðinu sem og af Austurlandi.  Eiðanemar, kennarar, starfsfólk og íbúar að Eiðum skemmtu sér alveg eins og það hafði gert á Eiðum í gegnum tíðina. Mikil stemning skapaðist á svæðinu þar sem væntumþykja, virðing og gleði var allsráðandi.

Margt tónlistarfólk steig á stokk á Eiðum þessa helgi sem í sumum tilfellum hafði ekki spilað saman í hljómsveit síðan á Eiðum fyrir tugum ára. Viðurkenndir ,,eldri borgarar" urðu rokkarar á ný, gömlu taktarnir komu aftur fram og brosið fór ekki af andlitunum.

Hátíðardagskrá á sunnudagsmorgun setti hátíðlegan blæ á samkomuna svo ekki sé minnst á poppmessu sem var í kjölfar hennar, þar sem ekki óþekktari Eiðanemar en Jónas Sig, Magni og Esther Jökulsdóttir löðuðu fram fagra stund í tali og tónum í samspili við guðfræðinginn Guðrúnu Áslaugu Einarsdóttur. Einnig léku þeir Hafþór Snjólfur Helgason og Hafþór Valur Guðjónsson undir í poppmessunni. Það var ánægður en klökkur hópur sem renndi úr hlaði á Eiðum seinni part sunnudags.

,,Hérna varð ég til"

Magni Ásgeirsson var einn þeirra sem skemmti sér og öðrum á Eiðum um helgina, en Austurglugginn náði tali af Manga í miðri smalamennsku í Borgarfirði, þar sem hann sveif enn á bleiku skýi eftir hátíðina.

,,Þetta var ólýsanlegt allt saman," sagði Magni. ,,Allir eru sammála um að Bryndís og undirbúningsnefndin hafi lyft grettistaki og jafnvel flutt fjöll, svo mögnuð var helgin. Ég hlakkaði til og bjóst við að þetta yrði skemmtilegt, en allt var svo miklu betra en mig óraði fyrir. Allt gekk eins og smurt, þarna var óendanlega mikið af fólki sem maður þekkti og ég hef ekki hlegið svona mikið lengi eða séð eins mörg bros á ævi minni.

Ég er enn hálf grenjandi af endurlitum - eða er það ekki íslenska orðið yfir flashback? Við vorum öll sammála um hve ótrúlega lyktarskynið er beintengt minningum, en þær helltust yfir mann ein af annarri þegar maður kom á vistirnar, í sundlaugina og matsalinn."

Magni var meira og minna á sviði um helgina, spilaði meðal annars í sundlauginni á setningarhátíðinni, með Trössunum á laugardaginn og í poppmessunni á sunnudaginn, auk þess að stíga á svið með hinum og þessum sveitum.

,,Ég fékk að spila með Trössunum, hetjunum mínum, en mín hljómsveit komst ekki. Þarna voru allir Trassarnir samankomnir -  Bjössi, Rúnar, Benni, Jónas og Ásgrímur Ingi, en þeir höfðu ekki spilað saman síðan á Eiðum forðum. Viðtökurnar voru svakalegar og strákarnir voru mjög hrærðir - svo mikið að ýmsar yfirlýsingar um ,,comeback" flugu um nóttina.

Þetta var allt svo frábært. Þarna komu saman hljómsveitir frá því ,,sextíu og eitthvað", menn höfðu verið að æfa sig í margar vikur og sumir keyptu sér hljóðfæri fyrir tilefnið. Helgin var öll svo falleg, haustlitirnir og umhverfið á Eiðum yndislegt. Við gátum samt ekki annað en brosað á sunnudaginn þegar fólk fór að tínast í poppmessuna - það var svolítið haust í því líka, hefur verið hærra á mönnum risið."

Sjálfur var Magni á Eiðum í skóla þrjá vetur. ,,Ég byrjaði á því að fá menningarsjokk þegar ég flutti úr fámenninu á Borgarfirði í Eiða. Ég man ekkert nema jákvætt frá þessum árum. Þarna eignaðist ég mína bestu vini og ég tek undir með þeim sem sagði þessa fleygu setningu um helgina; hérna varð ég til. Finnst hún segja allt sem segja þarf um Eiðar."