Minningarljóð


Ósk barst um að birta hér ljóð frá Eiðavinum sem flutt var í minningarathöfn Hermanns Níelssonar í Bústaðakirkju í gær. Ljóðið er þannig til komið að formaður var að reyna að setja saman minningarorð f.h. Eiðavina og fannst erfitt að finna réttu orðin fyrir svo stóran hóp. Þá datt mér í hug að nota minningarorðin frá ,,ykkur" Eiðavinum sjálfum sem ég fékk send í tölvupósti og eins það sem þið settuð inn á fb undir andlátsfregninni. Ég valdi úr áhrifaríkustu orðin, gafst upp á að setja þau saman sjálf og sendi þau á snillinginn og Eiðavininn Hannes Sigurðsson, þar sem ég vissi að úr því kæmi eitthvað verulega fallegt. Þeir sem sendu samúðarkveðju geta margir hverjir fundið orð sín fléttuð hér inn í ljóð Hannesar. Við þökkum Hannesi kærlega fyrir hans fallega ljóð sem verður einnig flutt við jarðarför Hermanns á Ísafirði og birt sem minningargrein í Morgunblaðinu.

HERMANN

Við munum hann svo vel, 
daginn, sem við hittumst fyrst.
Þú komst, brosandi út í annað,
svo ótrúlega léttur í spori, 
með fangið fullt af æsku og gleði, 
fjöri, þrótti og þori.

Þú hreifst okkur með í leikinn
leiddir, studdir, kenndir.
Í hverju verki virðing,
af hverjum sigri sómi.
Þú byggðir með okkur hallir
sem hýstu draumana,
og sáðir fræi sem varð að fögru blómi.

Nú ertu genginn, góði drengur.
Kennari, félagi, fyrirmynd.
Við horfum á eftir þér 
hljóð og döpur - klökk.
En minningin um þig lifir
í von og verki austfirskrar æsku
- vinur, hafðu þökk.