Eiðaskáld - Skúli Björn Gunnarsson

Eiðaneminn og forstöðumaður Gunnarsstofnunar á Skriðuklaustri hann Skúli Björn Gunnarsson getur vart hugsað um annað en Eiðagleði þessa síðustu daga fyrir hátíðina miklu. Það má sjá á ljóði eftir piltinn sem birtist í Austurglugganum nú á dögunum.

 

 

Þar segir Skúli Björn: ,,Ingunn Snædal skoraði á mig í ljóðaglugganum í síðustu viku. Fyrst ætlaði ég að finna eitthvað gott í skúffunni stóru um haustið. Góðviðrið hélt aftur af því sem og tilhlökkun vegna fyrirhugaðrar hátíðar á Eiðum 20.-22. september. Þar mun koma saman miðaldra fólk og eldra til að rifja upp ánægjuleg unglingsár. Í tilefni þess flýtur þetta ljóð hér fram á síðuna:"

undarlegt hvað unglingsárin renna saman í eitt
koss hér og koss þar
tár hér og tár þar
andlitin nafnlaus
áreynsla að rifja upp stað og stund
er þetta það sem þeir kalla elliglöp?

Stjórn Eiðavina veit að mun fleiri skáld leynast í hópi Eiðavina og hvetja þá til að mæta með ljóð í fórum sínum á hátíðina.