Fróðleiksmoli 4 - Bruninn á Eiðum.

 

Veturinn 1959-1960 var Þórarinn Þórarinsson skólastjóri í orlofi og dvaldi í Reykjavík en Ármann Halldórsson var settur skólastjóri á meðan. Hann bjó í íbúð Þórarins, sem var í suðurenda á 2. hæð skólahússins, en þar var einnig skrifstofa skólans.

Von var á Þórarni heim í byrjun júlí og flutti Ármann úr íbúðinni 27. júní og síðan var hún þrifin og húsið allt. Var því lokið um miðnætti 28. júní og var enginn í húsinu næstu nótt. 

Næsta morgun,

miðvikudaginn 29. júní, var mjög gott veður, sólskin og stafalogn. Um tíuleytið sá Björn Benediktsson, sem bjó í Þórarinshúsi andspænis skólanum, eldsbjarma í gluggum skrifstofunnar og kallaði til Ármanns og Páls bónda, sem stóðu á hlaðinu sunnan við húsið, að kviknað væri í skólanum. Fyrsta verk Ármanns var að hlaupa á símstöðina í Bænum þar sem Jón Sigfússon var til staðar. Hringdi hann fyrst í Egilsstaði en brunabíll þar reyndist í lamasessi. Þá var símað í Slökkvilið Seyðisfjarðar sem var að fást við eldsvoða í neðra og tafðist af þeim sökum; síðar var brunalið Reyðarfjarðar kallað til. Símaboð var sent á alla bæi í sveitinni og í Egilsstaðaþorpi fréttist líka fljótt um brunann. Dreif menn að og gengu þeir í að bjarga húsmunum úr skólastofum og bókasafni skólans.

Sýnt var að eldurinn hafði komið upp í íbúð skólastjóra á 2. hæð og þaðan varð engu bjargað. Í geymslukompum í rishæðinni voru ýmsir verðmætir munir í eigu skólans og skólastjóra. Þeim hefði ef til vill mátt bjarga en í fátinu hugleiddu menn það ekki. Engar eldvarnir voru í skólanum og þó að rennandi vatn væri á öllum hæðum virðist ekki hafa komið til álita að ráðast að eldinum með þeirri aðferð, til þess var hann orðinn of mikill.

Skólahúsið alelda Eldurinn breiddist hratt út og sprenging varð í risinu í ytri hluta hússins sem svipti hluta þaksins af og féll það niður vestan við húsið. Áttu menn fótum sínum fjör að launa og munaði litlu að ungur sonur Páls bónda lenti undir þakinu. Nokkrir menn urðu fyrir slysum af völdum loftþrýstings og glers úr gluggum. Eftir þetta varð skólahúsið alelda, efri hluti þess logaði stafna á milli. Byrjaði eldurinn þá að læsa sig í þak íþróttahússins og óttast var að hann bærist í næstu hús. Því var allt borið út úr verknámshúsinu og það ráð tekið að skvetta vatni á austurstafn þess. Hafði Halldór kennari fengið vatnsfötur sem til voru í Kaupfélaginu og gengu þær manna á milli neðan úr læk. Tókst þannig að forða húsinu frá bruna. 

Slökkvilið loksins mætt. Slökkvilið Seyðisfjarðar kom loks um kl. hálftólf með brunadælur og slöngur sem lagðar voru niður í Eiðalæk. Lagði það allt kapp á að bjarga íþróttahúsinu en eldur var þá kominn í vesturhluta þaksins að innanverðu. Fjögur hraustmenni klifu upp á þakið en hitinn var svo mikill að sprauta varð stöðugt á þá vatni til að þeir gætu rifið járn af því. Þannig tókst að slökkva eldinn í þakinu. Ef íþróttahúsið hefði brunnið var hætta á að eldur bærist í heimavistarhúsið. Um tólfleytið kom slökkvilið frá Reyðarfirði og réðist með brunadælum á aðalbálið í skólahúsinu, en þá var orðið um seinan að bjarga því. Samt var dælt viðstöðulaust á eldinn fram til kl. 4, að hann var talinn slökktur.

Ómetanlegt tjón Þá stóðu aðeins eftir steinveggir eldri hluta hússins (frá 1908) og stálbitar, flestir bognir og snúnir. Yngri hlutinn að norðan (frá 1926) var steyptur í hólf og gólf og stóð því eftir nema þakið var farið. Af íþróttahúsinu brann um þriðjungur þaksins og leikfimisalurinn skemmdist mikið af vatni. Tilfinnanlegast var tjón Þórarins skólastjóra, en allt innbú hans brann til ösku, þar á meðal mikið bókasafn, ýmsir verðmætir húsmunir og málverk. Skólinn missti nær alla innanstokksmuni úr 16 heimavistarherbergjum og ýmsa dýrmæta gripi sem voru í geymslum á efstu hæð. Á skrifstofunni brunnu skjöl frá skólastjórnartíma Þórarins. Var það mikið tjón fyrir sögu skólans en nokkur bót í máli að Benedikt Gíslason var búinn að nota þau við ritun Eiðasögu sinnar og taka sitthvað upp úr þeim.

Óljóst um eldsupptök Ekkert er vitað um eldsupptök, en rafmagn var á húsinu og því líklegast að það hafi orsakað eldsvoðann og hreingerning e.t.v. hjálpað til. Tilgáta var að stækkunargler sem lá í gluggakistu hefði komið brunanum af stað. 

Endurreisn hafin og skólahaldi ekki frestað Eftir brunann var ástandið svart á Eiðum. Íbúð skólastjóra, næstum allar kennslustofur og meira en helmingur heimavistarherbergja hafði eyðilagst. Þá sýndi Þórarinn skólastjóri hvað í honum bjó. Á þriðja degi eftir brunann, þann 1. júlí, kom hann austur. Með í för voru Helgi Elíasson fræðslumálastjóri, Guðmundur Guðjónsson arkitekt og fulltrúi frá Brunabótafélagi Íslands. Eftir að hafa kynnt sér aðstæður og metið brunatjónið var gerð áætlun um að halda starfsemi skólans áfram næsta vetur í lítið breyttu formi. Svo heppilega vildi til að í húsum skólans var nokkurt húsnæði sem ekki hafði verið tekið í notkun, það bjargaði því sem bjargað varð. Áætlunin var þríþætt:

1) Ljúka skyldi smíði á norðurálmu verknámshússins, sem er 16 x 8 m timburhús á steyptum kjallara, og var nú aðeins fokhelt.

2) Innrétta varahúsnæði í rishæð heimavistarhússins, þar sem fá mátti 15 tveggja manna herbergi.

3) Gera við norðurenda skólahússins sem byggður var 1926 og setja þak á hann, svo og að bæta þak íþróttahússins.

Framkvæmdir hófust 4. júlí og unnu við þær 10-12 manns frá byggingarfélaginu Brúnási á Egilsstöðum. Halldór Sigurðsson kennari annaðist verkstjórn, skólastjóri og annað starfsfólk skólans var til aðstoðar. Svo er að skilja að tryggingaféð hafi verið lágt og nægði ekki einu sinni fyrir umræddum framkvæmdum. Greip skólastjóri þá til þess ráðs að taka bankavíxil upp á 3 milljónir kr., með ábyrgð menntamálaráðuneytis, og 450 þúsund lagði ríkið fram. Skólastjórahjónin komu sér fyrir í heimavistarhúsinu. Í verknámshúsinu tókst að innrétta tvær kennslustofur, og tvær í „gamla endanum“ í skólahúsinu, en önnur þeirra var þó tekin undir fjölbýli 11 pilta, og annarri fjölbýlisstofu fyrir jafnmarga pilta var komið upp í kjallara verknámshúss. Í heimavistarhúsi var komið fyrir 70 nemendum, auk íbúða skólastjóra, tveggja kennara og vistarvera fyrir starfsfólk mötuneytis. Þetta nægði til að skólinn gat tekið til starfa haustið 1960, með fimm bekkjardeildum og 96 nemendum, aðeins mánuði seinna en vanalega. Mátti það kallast meiri háttar afrek. Tvísetja varð kennslustofur og fór kennsla fram allan daginn. Næsta sumar (1961) var 5 íbúðarherbergjum á 2. hæð í gamla húshlutanum komið í gagnið. Var þá hægt að leggja niður aðra fjölbýlisstofuna og breyta í kennslustofu og fjölga nemendum lítillega.

Úr Eiðasögu 1000-1998. Samantekt Helga Halldórssonar og Skúla Björns Gunnarssonar. Gefið út á vegum Samtaka Eiðavina.