Fróðleiksmolinn - Stafkirkja á Eiðum

Engar lýsingar finnast á hinum elstu kirkjum á Eiðum en þar hefur á fyrri öldum verið glæsileg timburkirkja (stafkirkja). Að stofni til virðist hún hafa staðið enn 1727 samkvæmt vísitasíu Jóns biskups Árnasonar. Lýsingin sýnir að hér var um stórhýsi að ræða, þrískipt: í forkirkju, miðkirkju og kór. Loft er yfir hluta mið- kirkju, stúkur með hurðum sitt hvoru megin við kór, og ‚útbrot‘ meðfram báðum hliðum miðkirkjunnar. Glergluggar eru á stöfnum og stúkum. Er með ólíkindum að slík kirkja skyldi vera reist fyrir svo fámenna sókn enda hefur hún líklega fremur átt að vitna um auðlegð og veldi staðarins en þjónustu við almenning. Líklegt er talið að Karl Arnórsson hafi látið byggja þessa kirkju á árunum 1320-1350. Í fornleifaskýrslu Björns Vigfússonar prests á Eiðum frá 1821 er lýst nokkrum kirkjugripum sem höfundur hennar telur hafa verið í miðaldakirkjunni. Þar á meðal er altarisbrík úr eik, útskorin, með myndum Péturs og Páls postula og krossmarki af alabastri í miðju. Auk þess „Nikolai líkneski“ af eik, um 1 m á hæð, í máluðum skáp með vængjahurðum. Ennfremur róðukross með Kristslíkneski af eik, hvítmáluðu, af svipaðri stærð. Loks kaleikur og patína, sem nú eru í Þjóðminjasafni. Altarisbríkin og Nikulás eru týnd en Kristslíkneskið rataði aftur í kirkjuna eftir nokkurn hrakning. Þess getur ekki í elstu lýsingum hennar og sögn er að það hafi fundist rekið á Eiðasandi við Héraðsflóa. (Úr Eiðasögu 1000-1998. Helgi Hallgrímsson og Skúli Björn Gunnarsson).